Hagsjá: Launavísitalan hækkar enn – en hún mælir ekki allar hreyfingar á vinnumarkaði
Samantekt
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 0,3% milli febrúar og mars. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,9%, sem er svipuð ársbreyting og var í síðasta mánuði. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en var u.þ.b. 6% í upphafi ársins 2019.
Taka ber fram að launavísitalan hækkaði minna en ella á seinni hluta síðasta árs þar sem mjög litlar launahækkanir höfðu orðið á opinbera markaðnum, en lengi vel gekk illa að ná kjarasamningum þar. Nýir kjarasamningar BSRB-félaganna auk fleiri samninga á opinbera markaðnum ættu að hafa merkjanleg áhrif á launavísitöluna á næstu mánuðum.
Þrátt fyrir mun minni launabreytingar en á síðustu árum eykst kaupmáttur enn miðað við fyrra ár og var óbreyttur milli febrúar og mars. Kaupmáttur launa var þannig 2,8% meiri nú í mars en í mars í fyrra. Það er reyndar athyglisverð staða að kaupmáttur sé enn að aukast þegar hallað hefur undan fæti í efnahagslífinu. Reyndar eru ýmsar blikur uppi á vinnumarkaðnum sem komið verður nánar inn á síðar í Hagsjánni.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá janúar 2019 fram janúar 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 5,4% á þessum tíma á meðan þau hækkuðu um 2,6% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 4,9% á sama tíma.
Eins og áður segir gengu kjarasamningar á opinbera markaðnum mjög hægt á síðasta ári og var sú staða enn uppi í janúar í ár. Töluverðar breytingar hafa síðan orðið á þeirri stöðu, en tölur um einstaka undirþætti launavísitölunnar eru alltaf töluvert seinna á ferðinni en launavísitalan sjálf.
Meðal starfsstétta hækkuðu laun skrifstofufólks mest milli janúarmánaða 2019 og 2020, um 7,3%. Eins og áður segir hækkaði launavísitala í heild um 4,9% á sama tíma. Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu næst mest milli ára, um 6,9%, en laun stjórnenda hækkuðu minnst, um 4,2%. Það er því töluverður munur á launaþróun milli þessara starfsstétta.
Sé litið til atvinnugreina hafa laun í verslun og viðgerðum hækkað mest milli ára, um 6,4%, og þar á eftir í fjármála og vátryggingarstarfsemi, um 5,7%. Laun veitinga- og gististöðum hækkuðu langminnst á milli ára, um 2,5% sem er töluvert fyrir neðan 4,9% hækkun launavísitölunnar.
Þann 1. apríl var áfangahækkun í mörgum kjarasamningum og koma þær til framkvæmda um næstu mánaðamót fyrir þá sem fá laun greidd eftir á. Töluverðar umræður hafa verið um hvort hætta ætti við þessar launahækkanir eða fresta þeim vegna ástandsins í samfélaginu og á vinnumarkaðnum. Ekkert bendir til þess að svo verði. Næsta áfangahækkun í flestum kjarasamningum á vinnumarkaðnum verður þann 1. janúar 2021. Gangi þessar hækkanir eftir má vænta þess að kaupmáttur haldi áfram að aukast þar sem reiknað er með tiltölulega lítilli verðbólgu.
Hvað kaupmáttarþróunina varðar þarf að hafa í huga að launavísitalan byggir á breytingum reglulegs tímakaups og mælir þannig laun á vinnustund í dagvinnu. Þannig er ekki um neina mælingu á vinnumagni að ræða eins og t.d. gildir um vísitölu heildarlauna sem mælir öll laun fyrir alla vinnu. Þar skiptir lengd vinnutíma máli eins og gildir um öll tekjuhugtök eins og t.d. atvinnutekjur eða ráðstöfunartekjur. Þess er því að vænta að þróun launavísitölunnar verði með öðrum hætti en t.d. þróun vísitölu heildarlauna eða atvinnutekna á næstu mánuðum þegar búast má við miklum þrengingum á vinnumarkaði.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Launavísitalan hækkar enn – en hún mælir ekki allar hreyfingar á vinnumarkaði (PDF)