Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli febrúar og mars og hefur hækkað um 7,1% frá mars 2017. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hefur verið nokkuð stöðugur í kringum 7% í tæpt ár. Aukning kaupmáttar launa hefur stöðvast og hefur kaupmáttur verið nokkuð stöðugur síðustu mánuði eða allt frá því í júní í fyrra. Sé hins vegar miðað við mars var kaupmáttur launa tæplega 5% meiri nú en var í mars 2017.
Síðustu stóru launahækkanirnar á almennum markaði voru í maí í fyrra, en þá hækkaði launavísitalan um rúmlega 3%. Næstu almennu launahækkanir verða nú í maí og þá má búast við töluverðri hækkun launavísitölunnar. Breytingin hefur hins vegar ekki mikil áhrif á árshækkunina þar sem miklar hækkanir eru í sama mánuði bæði árin.
Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á einu ári, frá janúar 2017 til janúar 2018, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum hafa verið talsvert meiri en á þeim opinbera, 8,1% á móti 5,6%. Opinberi markaðurinn er hins vegar tvískiptur þar sem launahækkanir innan sveitarfélaganna hafa verið eilítið meiri en hjá ríkinu. Staða kjarasamninga einstakra hópa skýrir yfirleitt þennan mun, en launaskrið á almenna markaðnum hefur líka mikil áhrif. Stöðug árshækkun launa upp á meira en 7%, og árshækkun á almenna markaðnum um rúm 8%, eru skýrar vísbendingar um að talsvert launaskrið sé í gangi, enda er þarna um að ræða talsverðar hækkanir umfram kjarasamninga.
Sé litið á breytingu launa eftir starfsstéttum á einu ári má sjá að laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hafa hækkað mest á árinu, eða um 9,6%, sem er langt umfram meðalhækkun launavísitölunnar. Það er spurning hvort ferðaþjónustan eigi þar einhvern hlut að máli. Laun skrifstofufólks og iðnaðarmanna hafa hækkað næstmest. Laun stjórnenda og sérfræðinga hafa hækkað minnst á þessum 12 mánuðum sem er svipuð staða og verið hefur hvað þær stéttir varðar.
Sé litið á þróun launa innan atvinnugreina hafa þau hækkað mest í verslun og viðgerðum og veitustarfsemi frá janúar 2017 til janúar 2018. Þetta er nokkur breyting upp á við hvað veitustarfsemina varðar. Þá er hér einnig um að ræða breytingu á stöðunni í byggingariðnaði sem lengi vel hefur verið með mestu launabreytingarnar.
Laun í framleiðslu og fjármála- og vátryggingastarfsemi hafa hækkað minnst á þessu tímabili. Launavísitalan í heild hækkaði um 7,1% á þessum tíma þannig að laun í verslun og viðgerðum hafa hækkað verulega umfram meðaltalið en laun í framleiðslu hafa samt sem áður hækkað meira en meðaltalið. Tölurnar fyrir opinbera starfsmenn drógu meðalhækkun launavísitölunnar niður í janúar, eins og sést á þessum tölum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Launavísitalan föst í 7% árshækkun – kaupmáttur stöðugur síðustu mánuði (PDF)