Hagsjá: Launavísitalan áfram á sama róli og kaupmáttur enn stöðugur
Samantekt
Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitalan um 0,2% milli janúar og febrúar. Breytingin á ársgrundvelli var 5,6% sem er minnsta ársbreyting frá maí 2015. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hafði verið nokkuð stöðugur í rúmlega 7% í u.þ.b. ár, frá vori 2017 fram á vor 2018, en lækkaði þá niður í kringum 6% og hefur lækkað eilítið síðan. Launavísitalan hækkaði um 6,1% milli 4. ársfjórðungs 2017 og sama tíma 2018.
Kaupmáttur launa hefur verið stöðugur undanfarna mánuði, og var 2,2% meiri í febrúar en í febrúar árið áður. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 24%, eða u.þ.b. 7% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd. Á árum áður var staðan oft sú að sú aukning kaupmáttar sem náðist í upphafi samningstímabils var horfin í lok þess, og stundum gott betur. Síðasta samningstímabil er einstakt að þessu leyti, bæði hvaða árangur hefur náðst og hversu vel hefur tekist að varðveita kaupmáttinn.
Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á vinnumarkaði á einu ári, frá 4. ársfjórðungi 2017 til 4. ársfjórðungs 2018, má sjá að launahækkanir á almenna og opinbera markaðnum hafa verið áþekkar, eða rúm 6%. Laun starfsmanna ríkisins hækkuðu mest en laun hjá sveitarfélögum minnst.
Nú um mánaðamótin runnu flestir kjarasamningar á opinbera vinnumarkaðnum út þannig að endurnýja þarf samninga á nær öllum markaðnum. Þá hefst jafnan mikil umræða um samanburð milli hópa. Sagan sýnir ótvírætt að launaþróun á opinbera og almenna markaðnum er mjög svipuð til lengri tíma litið. Yfir styttri tímabil er alltaf um einhverjar sveiflur að ræða en þær jafnast alla jafna út. Sé miðað við breytingu frá upphafi ársins 2015 höfðu laun opinberra starfsmanna hækkað um 35,4% á meðan þau höfðu hækkað um 34,6% á almenna markaðnum. Munurinn á þeim tímapunkti var einungis 0,6 prósentustig. Það má því slá því föstu að laun stóru hópanna á vinnumarkaði hafi þróast með nánast sama hætti síðustu fjögur ár.
Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá 4. ársfjórðungi 2017 til sama tíma 2018 var mest hjá tæknum og sérmenntuðu starfsfólki, 8,1%. Laun stjórnenda hækkuðu áberandi minnst á þessu tímabili, eða um 4,2%. Laun annarra starfsstétta hafa hækkað í kringum 6% á þessum tíma sem er álíka og hækkun launavísitölunnar.
Sé litið til atvinnugreina hafa laun hækkað mest í annars vegar flutningum og geymslustarfsemi og hins vegar í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð frá 4. árfjórðungi 2017 til sama tíma 2018, eða í kringum 7%, sem er vel umfram hækkun launavísitölunnar. Laun í framleiðslu og í fjármála- og vátryggingastarfsemi hafa hækkað minnst, eða í kringum 5%. Það vekur athygli að laun í flutninga- og geymslustarfsemi hækkuðu mun meira á milli 3. og 4. árfjórðungs í fyrra en gerðist í öðrum greinum.
Nú þegar gerð kjarasamninga er á lokastigi á almenna markaðnum er ekki hægt að segja annað en að síðasta samningstímabil hafi tekist vel. Kaupmáttur nú í febrúar var þannig 2,2% meiri en í febrúar í fyrra sem er óvenjulegt í lok samningstímabils. Það liggur því mikið við að komandi kjarasamningar verði til þess að áframhald verði á þeirri þróun að kaupmáttur aukist með jöfnum og traustum hætti.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Launavísitalan áfram á sama róli og kaupmáttur enn stöðugur (PDF)