Hagsjá: Launaþróun stöðug – launahækkanir töluvert umfram kjarasamninga
Samantekt
Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli mars og apríl og heldur áfram að tifa í sama takti og verið hefur. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hefur verið nokkuð stöðugur í kringum 7% í tæpt ár. Verulega hefur hægt á aukningu kaupmáttar launa og hefur kaupmáttur verið nokkuð stöðugur frá því um mitt ár 2017. Vegna þess að kaupmáttur var enn að aukast í apríl í fyrra var hann tæpum 5% meiri í apríl nú en hann var fyrir ári.
Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári fram til febrúar 2018 var áberandi mest hjá tæknum og sérmenntuðu fólki. Segja má að þetta endurspegli stöðu þessara hópa í efnahagslífinu um þessar mundir, en staða slíkra hópa er jafnan sterk þegar mikil eftirspurn er eftir vinnuafli. Það vekur athygli að laun stjórnenda hafa hækkað áberandi minnst á þessum 12 mánuðum. Umræða á vinnumarkaðnum hefur verið að færast í þá átt að þörf sé á verulegri leiðréttingu lægstu launa. Þessar tölur um hækkun starfsstétta sýna að hækkun launa verkafólks hefur verið sú næst lægsta á einu ári.
Sé þróun launa einstakra starfsstétta skoðuð yfir núverandi samningstímabil, sem er sama tímabil og var haft til viðmiðunar í SALEK samkomulaginu, má sjá að laun tækna og sérmenntaðs fólks annars vegar og verkafólks hins vegar hafa hækkað mest, eða um og yfir 32%. Munurinn gagnvart næstu hópum er þó ekki mikill. Launaramminn samkvæmt SALEK samkomulaginu var 32% frá árslokum 2014 fram til ársloka 2018. Flestir þessara hópa fengu 3% hækkun launa þann 1. maí sl. sem ekki er komin inn í vísitöluna þannig að launahækkanir á samningstímabilinu verða töluvert meiri en SALEK viðmiðin gerðu ráð fyrir.
Athygli vekur að laun stjórnenda og sérfræðinga hafa hækkað mun minna en annarra hópa á þessu tímabili og á það sérstaklega við um laun stjórnenda þar sem launin hafa hækkað 10 prósentustigum minna en hjá hæsta hópnum.
Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á einu ári, frá febrúar 2017 til febrúar 2018, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum hafa verið mestar og mun meiri en á opinbera markaðnum. Launahækkanir hjá sveitarfélögum hafa verið minnstar. Sé litið til atvinnugreina hafa laun hækkað langmest í flutningum og geymslu frá febrúar 2017 til febrúar 2018. Laun í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð hafa hækkað næstmest á þessu tímabili á meðan laun í framleiðslu hafa hækkað áberandi minnst. Launavísitalan hækkaði um 7,3% á þessum tíma þannig að laun í flutningum og geymslu hafa hækkað verulega umfram meðaltalið en laun í framleiðslu töluvert minna.
Sé litið á tímabilið frá janúar 2015 til apríl 2018 má sjá að launavísitalan hefur hækkað töluvert umfram samningsbundnar hækkanir sem sýnir að launakostnaður fyrirtækjanna hefur hækkað meira en samið var um í heildarkjarasamningi. Það passar auðvitað vel við hagsveifluna á þessum tíma og þýðir að staðbundnir samningar og hreint launaskrið hafa hækkað launin umfram það sem gert var ráð fyrir.
Launakostnaður á framleidda einingu hækkaði um tæp 17% hér á landi frá 2014 til 2017. Á sama tíma var samsvarandi hækkun um 6% í Þýskalandi og 3,3% á Evrusvæðinu öllu. Það gefur augaleið að þessi staða hefur verið og er íslenskum útflutningsgreinum mjög erfið. Hér koma bæði til miklar launahækkanir hér á landi og styrking krónunnar á þessum tíma.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Launaþróun stöðug – launahækkanir töluvert umfram kjarasamninga (PDF)