Hagsjá: Launaþróun á næsta samningstímabili verður svipuð og var á síðasta ári

Samantekt
Ætla má að áhrif beinna launahækkana vegna samningsins verði að meðaltali 3-4% á ári og með spá um hóflegt launaskrið í kjölfarið mun launavísitalan hækka eitthvað meira, en þó má búast við að hækkanir verði nokkuð lægri en var að jafnaði á síðasta samningstímabili.
Gangi tillögur um lækkun tekjuskatts eftir munu ráðstöfunartekjur hækka meira en launatekjur, sérstaklega hjá tekjulægri hópum. Sé litið einangrað á áhrif kjarasamningsins á fyrsta rúma árinu, þ.e. tvær fyrstu launahækkanirnar og áætlaðar breytingar á tekjuskatti miðað við 350 þús. kr. mánaðartekjur segir lauslegt mat að launin muni hækka beint um 11,7% og ráðstöfunartekjur um 12,9% á þessu rúma ári, verði skattbreytingarnar komnar til framkvæmda. Miðað við verðbólguspár mun þetta fela í sér verulega kaupmáttaraukningu fyrir hópa með tekjur á þessu bili.
Í kjarasamningnum eru ákvæði um að laun geti hækkað umfram fyrr greindar launahækkanir á árunum 2020-2023 aukist landsframleiðsla á mann um meira en 1%. Þær hækkanir munu nýtast þeim tekjulægri meira en öðrum og verða meiri eftir því sem hagvöxtur er hærri.
Það er nokkuð ljóst að ekki mun koma til launabreytinga á næsta ári vegna hagvaxtar á yfirstandandi ári, og tæplega á árinu 2021. Miðað við opinberar spár gæti hagvöxtur á mann aukist um u.þ.b. 1% á árinu 2021 og þannig hækkað laun lítillega í maí 2022.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitalan um 1,5% milli mars og apríl. Breytingin á ársgrundvelli var 6,8% sem er mesta ársbreyting frá apríl 2018. Áhrif kjarasamningsins voru væntanlega ekki komin öll inn í launavísitöluna í apríl þannig að vænta má að tölur verði svipaðar í maí.
Kaupmáttur launa hefur staðið nokkurn veginn í stað undanfarna mánuði, og tók nokkuð stökk upp á við í apríl. Kaupmáttur var þannig 3,4% meiri í apríl 2019 en í apríl í fyrra.
Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á vinnumarkaði á einu ári, frá febrúar 2018 til febrúar 2019, má sjá að launahækkanir á opinbera markaðnum hafa verið heldur meiri en á þeim almenna, eða tæp 6% á móti 5,3%.
Þrátt fyrir að kjarasamningum hafi verið lokið á nær öllum almenna markaðnum er enn óvissa framundan. Nær allur opinberi markaðurinn er með opna samninga og þeir síðustu þar renna út í lok þessa mánaðar. Ekki er víst að samningar á almenna markaðnum verði notaðir sem fyrirmynd á þeim opinbera. Ekki hefur mikið sést enn um efndir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, t.d. um skattbreytingar og húsnæðismál.
Í september 2020 og 2021 mun fara fram mat á þeim árangri sem samningurinn hefur skilað og verður þar litið t.d. til kaupmáttar, vaxtastigs og efnda ríkisstjórnar.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Launaþróun á næsta samningstímabili verður svipuð og var á síðasta ári (PDF)









