Hagsjá: Launabreytingar áfram mjög hóflegar
Samantekt
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 0,16% milli október og nóvember. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,2%, sem er sama ársbreyting og verið hefur síðustu 3 mánuði, og hefur hún ekki verið svona lítil síðan í ársbyrjun 2011.
Á árinu 2016 hækkaði launavísitalan að jafnaði um 0,7% á mánuði, um 0,6% 2017, 0,5% 2018 og um 0,37% það sem af er þessu ári. Þróunin hefur því verið nokkuð jöfn niður á við.
Breytingar á launavísitölunni eru minni en ætti að vera þar sem ekki hefur verið um neinar kjarasamningsbundnar launabreytingar að ræða á opinbera markaðnum á seinni hluta ársins 2019. Hluti vinnumarkaðarins hefur því verið nær frosinn hvað launabreytingar áhrærir og hefur það auðvitað áhrif á þróun vísitölunnar.
Viðræður vegna kjarasamninga flestra hópa á opinbera markaðnum hafa staðið yfir frá því í vor án þess að samningar hafi verið gerðir við stærstu hópana.
Þrátt fyrir að hækkunartaktur launa hafi lækkað nokkuð stöðugt hefur kaupmáttur launa aukist mikið og var t.d. rúmlega 17% meiri nú í nóvember en í árslok 2015. Kaupmáttur hefur aukist áfram á þessu ári og var 1,5% meiri í nóvember en í nóvember í fyrra.
Í langtímasamhengi hefur kaupmáttur aldrei verið meiri og hefur hann aukist nær stöðugt frá árinu 2010. Fyrir hrun var kaupmáttur hæstur á miðju ári 2008, en hann er tæplega 26% hærri núna en þá. Sé litið á síðustu 10 ár var kaupmáttur nú í nóvember þannig 25% meiri en hann var í nóvember 2009. Það eru ekki margar þjóðir sem hafa upplifað meiri kaupmáttaraukningu á síðustu 10 árum.
Næstu samningsbundnu launabreytingar á almenna markaðnum verða ekki fyrr en í apríl og því má búast við að kaupmáttur láti eitthvað undan síga fram að því, nema launaskrið byrji að taka við sér. Þó eru þess ekki mikil merki, enda spenna á vinnumarkaði farið minnkandi eins og sést t.d. á auknu atvinnuleysi og minni atvinnuþátttöku.
Tölur frá Hagstofunni um nánari samsetningu launavísitölunnar ná fram til september 2019. Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á vinnumarkaði á einu ári, frá 3. ársfjórðungi 2018 til sama tíma í ár, má sjá að áhrif kjarasamninga skipta verulegu máli. Launahækkanir á almenna markaðnum á þessum tíma voru þannig verulega meiri en á þeim opinbera. Kjarasamningar á almenna markaðnum voru gerðir í byrjun apríl og vikunum þar á eftir, en í ágúst höfðu ekki verið gerðir neinir samningar á opinbera markaðnum. Launabreytingar á opinbera markaðnum milli 2. og 3. ársfjórðungs voru þannig óverulegar.
Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá 3. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019 var mest hjá tæknum og sérmenntuðu fólki, 6,6%, og næst mest hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki, 6%. Launavísitalan fyrir almenna markaðinn hækkaði um 5% á þessum tíma og því hafa laun þessara hópa hækkað nokkuð umfram meðaltal almenna markaðarins. Laun sérfræðinga og stjórnenda hækkuðu áberandi minnst á þessu tímabili, eða undir 4%, sem er lægra en hækkun launavísitölu.
Frá 3. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019 hafa laun í atvinnugreinum hækkað mest í verslun og viðgerðum, eða um 5,8%, og næst mest í flutningum og geymslu, um 5,5%. Eins og áður segir hækkaði launavísitalan á almenna markaðnum um 5%. Laun hækkuðu minnst á þessum tíma í veitustarfsemi, 3,2%, og í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, 3,6%.
Nú hefur kjarasamningum verið lokað fyrir nær allan almenna markaðinn. Blaðamenn eru enn í erfiðum viðræðum og flugvirkjar eru nú að taka afstöðu til kjarasamnings. Langstærstur hluti opinbera markaðarins er enn með lausa samninga. Rammi lífskjarasamningsins frá 3. apríl hefur náð fótfestu á nær öllum almenna markaðnum og einnig þeim fáu samningum sem hafa verið gerðir á þeim opinbera.
Enn sjást ekki nein merki um launaskrið eins og hefur oft orðið þegar hækkanir í kjarasamningum eru mestar á neðri enda launaskalans. Staðan á vinnumarkaði er þannig nú að ekki er að vænta mikils launaskriðs.