Hagsjá: Kröftugur hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi
Samantekt
Hagvöxtur mældist 5,4% á fyrsta fjórðungi ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. Þetta er töluvert meiri vöxtur en verið hefur á síðustu fjórðungum og þarf að fara aftur til 4. ársfjórðungs 2016 til að sjá hærri tölur. Hagvöxtur var borinn uppi af vexti útflutnings, aukinni fjármunamyndun og einkaneyslu. Áhrif útflutningsins voru þó mest og voru þau til jafns við samanlögð áhrif einkaneyslu og fjárfestingar.
Hægir á vexti einkaneyslu
Vöxtur einkaneyslu á yfirstandandi hagvaxtarskeiði náði hámarki í 10% á öðrum fjórðungi síðasta árs. Stöðugt hefur dregið úr vextinum frá þeim tíma og nam hann 5,9% á fyrsta ársfjórðungi. Eitt af athyglisverðum einkennum núverandi uppsveiflu er að vöxtur einkaneyslu hefur verið minni en vöxtur kaupmáttar yfir nær allt tímabilið. Það er fyrst nú á síðustu ársfjórðungum sem vöxtur einkaneyslu hefur reynst meiri en aukning kaupmáttar.