Hagsjá: Jafnt og stöðugt launaskrið
Samantekt
Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli júlí og ágúst og hefur alls hækkað um 7,2% frá ágúst 2016. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hefur verið nokkuð stöðugur síðustu mánuði, rúmlega 7% og hefur lækkað töluvert frá vorinu 2016, þegar árshækkunin náði hámarki í rúmlega 13% á tímabili. Vegna lágrar og stöðugrar verðbólgu hefur kaupmáttur launa aukist jafnt og þétt í takt við hækkun nafnlauna og verið í sögulegu hámarki síðustu 3 mánuði. Kaupmáttur launa er nú um 5% meiri en fyrir ári síðan.
Áfangahækkanir launa samkvæmt kjarasamningum til meginþorra launafólks á almenna vinnumarkaðnum voru í kringum 6,2% í maí 2016 og 4,5% í maí 2016. Sérkjarasamningar af ýmsu tagi hafa mögulega hækkað þessar tölur eitthvað, en þetta var meginlínan á almenna markaðnum. Samkvæmt kjarasamningum ætti hækkunartaktur launa því að vera í kringum 4,5% um þessar mundir, en hækkunartaktur launavísitölu hefur verið rúmlega 7% síðustu mánuði. Þróun launavísitölunnar er því vísbending um að jafnt og stöðugt launaskrið sé í gangi. Sú staða ætti ekki að koma á óvart miðað við mikinn hagvöxt og skort á vinnuafli.

Laun á almenna markaðnum hækkuðu um 6,2% á milli 2. ársfjórðungs 2016 og sama tíma 2017. Á sama tíma hækkuðu laun á opinbera markaðnum alls um 7,7%, 7,4% hjá starfsmönnum ríkisins og 8,1% hjá starfsmönnum sveitarfélaga.
Hækkun einstakra starfsstétta frá 2. ársfjórðungi 2016 til sama tíma 2017 var á bilinu 5-7%. Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu mest, eða um 7,7%. Minnsta hækkunin var hjá stjórnendum, 5,2%.
Launabreytingar í atvinnugreinum milli 2. ársfjórðungs 2016 og sama tíma 2017 voru á bilinu 4,2-7,5%. Þrjár greinar skera sig nokkuð úr, flutningar og geymsla, byggingarstarfsemi og verslun, en þessar greinar standa næst þenslunni í hagkerfinu. Laun í veitustarfsemi hækkuðu minnst, eða um 4,2%, sem er langtum minna en hækkun launavísitölunnar á sama tímabili.
Í febrúar var gildistími núgildandi kjarasamninga framlengdur um eitt ár. Launahækkun upp á 4,5% kom til framkvæmda á almenna markaðnum þann 1. maí og gildi samningurinn áfram munu laun almennt hækka um 3% þann 1. maí 2018. Töluverður fjöldi samninga er nú laus, aðallega á opinbera markaðnum, og eru viðræður í gangi. Niðurstöður þeirra viðræðna munu eflaust ráða miklu um hvort kjarasamningar verði framlengdir í febrúar 2018.
Staðan á vinnumarkaðnum er sérstök að því leyti nú að öll markmið um kaupmáttaraukningu og stöðugleika í kaupmætti hafa náðst. Markmið við kjarasamningsgerð snúast því ekki um að endurheimta tapaðan kaupmátt og því ætti að vera hægt að snúa sér að öðrum þáttum.