Hagsjá: Íbúðaverð hækkaði milli mánaða í janúar – raunverð aldrei verið hærra

Samantekt
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,5% milli mánaða í janúar. Tólf mánaða hækkun mælist nú 2,5% sem er smá hækkun frá síðasta mánuði. Mikill kraftur var í viðskiptum með íbúðarhúsnæði í janúar og tók verðið smá kipp í samræmi við það.
Samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,5% milli desember og janúar. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,6% en verð á sérbýli hækkaði um 0,2%.
Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 2,8% og verð á sérbýli um 0,9%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs í janúar var því 2,5% sem er 0,2 prósentustigi meira en í desember.
Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis mældist 1,6% í janúar og hefur raunverð fasteigna því hækkað horft 12 mánuði aftur í tímann. Þrátt fyrir að verð á húsnæði hafi hækkað tiltölulega lítið sögulega séð á undanförnum misserum hefur raunverðið haldist nokkuð stöðugt og jafnvel farið hækkandi. Þannig var raunverðið nú í janúar 0,9% hærra en það var í janúar 2019, en samsvarandi tala fyrir janúar í fyrra var 2,6% hækkun. Raunverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur reyndar aldrei verið hærra en nú í janúar.
Raunverð íbúðarhúsnæðis nú í janúar var 11% hærra en það var hæst haustið 2007. Frá því að raunverðið fór lægst eftir hrun, vorið 2010, hefur það hækkað um 82%.
Fjöldi viðskipta með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í var með allra mesta móti í janúar. Alls var þinglýst 733 kaupsamningum sem er töluvert meira en í meðalmánuði 2019 sem var með 606 viðskipti. Árið fer því nokkuð hressilega af stað hvað fjölda viðskipta varðar álíka og var með janúar í fyrra.
Haustið var nokkuð viðburðaríkt á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu eftir afar tíðindalítið sumar. Fjöldi viðskipta á haustmánuðum (september-nóvember) var 40% meiri en á sumarmánuðunum (júní-ágúst). Þá voru viðskipti 16% fleiri á síðustu fjórum mánuðum 2019 en á sama tíma árið áður.
Alla jafna bendir aukinn fjöldi viðskipta til þess að spenna sé að aukast sem að óbreyttu veldur þrýstingi á verðlag. Nýjustu gögn Þjóðskrár hafa bent til þess að verðhækkanir séu afar hóflegar og markaðurinn því nokkuð stöðugur.
Mikið hefur verið í byggingu af nýjum íbúðum og framboð íbúða því aukist, og mun eiga eftir að aukast meira. Nýjar íbúðir eru að jafnaði dýrari en þær sem eldri eru, en hin hliðin á auknu framboði er að það getur leitt til þess að spenna minnki á húsnæðismarkaði. Það eru því ýmsir kraftar sem verða til þess að verðhækkanir í dag eru ekki meiri en raun ber vitni.
Nýjar íbúðir þurfa hins vegar að seljast til þess að hafa áhrif á markaðverð fasteigna. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sölutími nýrra íbúða lengst mikið frá árinu 2017 og mældist þriggja mánaða meðaltal sölutíma í 217 dagar í lok árs 2019 og hefur sölutíminn ekki verið lengri síðan í byrjun árs 2016. Þessi þróun kemur ekki á óvart þar sem margt hefur lengi bent til þess að verið væri að bjóða of mikið fram af stórum íbúðum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Íbúðaverð hækkaði milli mánaða í janúar – raunverð aldrei verið hærra (PDF)









