Hagsjá: Íbúðamarkaður færist í eðlilegra horf
Samantekt
Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár var 467 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í maí og voru þinglýsingar 21% færri en í maí fyrir ári síðan, þegar 591 kaupsamningum var þinglýst. Þó þetta sé vissulega samdráttur frá maímánuði í fyrra er um talsverða aukningu að ræða frá aprílmánuði þessa árs, þegar einungis 275 samningum var þinglýst.
Tilslakanir á samkomubanni, sem tóku gildi í maímánuði, virðast því hafa haft jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn og má segja að viðskipti séu að komast í eðlilegra horf, enda aðstæður til fasteignakaupa að mörgu leyti góðar um þessar mundir. Hagstæðari vaxtakjör fást nú en oft áður og hækkanir á íbúðaverði hafa verið afar hóflegar.