Samantekt
Fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna á heilsárshótelum nam 426 þúsund í ágúst og jókst um 3,3% frá sama tímabili í fyrra. Það er örlítið meiri aukning á 12 mánaða grundvelli en í júlí þegar aukningin nam 1,4%. Gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 2,2% í ágúst eftir 1,7% samdrátt í júlí. Það svæði sem sker sig mest úr eru Suðurnes en þar jókst fjöldi gistinátta um 41% í ágúst sem er vel að merkja minnsti vöxturinn á því svæði það sem af er ári. Fyrir utan Suðurnes var aukningin mest á Vesturlandi (12,3%) og Suðurlandi (4,6%).
Gistimarkaðurinn stækkar langhraðast á Suðurnesjum
Hótelgistimarkaðurinn hefur stækkað hratt á Suðurnesjum á síðustu árum. Frá því uppsveiflan í ferðaþjónustu hófst árið 2011 hefur fjöldi gistinátta á hótelum á Suðurnesjum aukist um 470% og hefur aukningin hvergi verið hlutfallslega meiri. Næstmesta aukningin var á Austurlandi á þessu tímabil eða rúmlega 400%. Þegar þessi svæði eru borin saman það sem af er þessu ári kemur í ljós að á fyrstu 8 mánuðum ársins jókst fjöldi gistinátta á Suðurnesjum um 79% en milli sömu tímabila var um að ræða 0,8% samdrátt á Austurlandi. Sé horft til fyrstu 8 mánaða ársins skera Suðurnes sig verulega frá öðrum svæðum landsins en næstmesta aukningin í fjölda gistinátta var á Suðurlandi þar sem aukningin nam 27%.
Lesa Hagsjána í heild









