Hagsjá: Hlutur ráðstöfunartekna af tekjum mun minni en áður
Samantekt
Hagstofa Íslands birti í síðustu viku tölur um ráðstöfunartekjur heimila en þær jukust 10,2% milli áranna 2015 og 2016. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 8,7% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 6,9%. Þessar tölur eru enn ein staðfestingin á mikilli aukningu rauntekna hér á landi síðustu ár.
Hlutur launa í heildartekjum hefur að meðaltali verið um 69% frá árinu 1994. Hlutur launa fór lægst í 61% á árinu 2009 og var tæp 69% árið 2016. Tilfærslutekjur hafa að meðaltali verið um 14% tekna og fóru þær hæst í 18% á árinu 2011 og voru rúm 15% árið 2016.
Til þess að reikna út ráðstöfunartekjur eru eigna- og tilfærsluútgjöld dregin frá heildartekjum. Meðal þessara útgjalda eru t.d. afborganir af lánum, skattar og iðgjöld til lífeyrissjóða.
Ráðstöfunartekjurnar eru því eðli málsins samkvæmt lægri en heildartekjur og þær eru oft birtar sem tekjur á mann þar sem þjóðinni fer sífellt fjölgandi. Á tímabilinu 1994-2016 hafa ráðstöfunartekjur að meðaltali verið um 64% heildartekna. Hlutfall ráðstöfunartekna af heildartekjum hefur hins vegar lækkað mikið á tímabilinu, var um 70% í upphafi þess en um 62% á árinu 2016.
Sé þróun eigna- og tilfærsluútgjalda skoðuð má sjá að hækkun þeirra hefur verið svipuð á öllu tímabilinu, en þróunin innan tímabilsins hefur verið mjög mismunandi. Eignaútgjöldin jukust mun meira en tilfærsluútgjöldin allt fram til ársins 2009, en þau lækkuðu verulega að raungildi fram til ársins 2012. Tilfærsluútgjöldin lækkuðu mikið að raungildi milli 2007 og 2009 en hafa aukist nokkuð síðan og í takt við tekjurnar síðustu árin.
Stóra myndin er því sú að sá hluti tekna sem heimilin ráðstafa sjálf hefur minnkað hlutfallslega á síðustu rúmum 20 árum. Minnkunin var hröðust á síðustu árum síðustu aldar og í kringum hrunið. Á öðrum tímabilum hefur þróunin verið stöðugri og frekar upp á við frá árinu 2010. Hluti af því sem dregst frá tekjum heimilanna er lífeyrissparnaður sem kemur til ráðstöfunar seinna, þegar hann er tekinn út. Stór hluti fer einnig í skatta til hins opinbera sem þýðir með öðrum orðum að við ráðstöfum þeim tekjum sameiginlega í stað þess að það gerist innan hvers heimilis. Sú þróun ætti að sjást í aukinni samneyslu, en þróun þeirrar stærðar sýnir að hún hefur einnig farið minnkandi sem hlutfall af landsframleiðslu. Hlutur samneyslu af landsframleiðslu fór reyndar vaxandi í takt við hlutfallslega minnkun ráðstöfunartekna fyrri hluta tímabilsins, en á síðustu árum hafa farið saman hlutfallslega minni ráðstöfunartekjur og hlutfallsleg minnkun samneyslu. Skattgreiðendur virðast því fá minna fyrir snúð sinn en áður.