Samantekt
Velta innlendra greiðslukorta jókst um 0,5% að raunvirði milli ára í september. Velta í verslunum hér á landi jókst um 0,3% milli ára miðað við fast verðlag og 1,5% í viðskiptum erlendis miðað við fast gengi. Til samanburðar var vöxturinn 10,3% erlendis og 3% í verslunum hér á landi í september í fyrra.
Líkt og bent hefur verið á í fyrri Hagsjám er verulega farið að hægja á kortaveltu Íslendinga. Á þriðja ársfjórðungi jókst kortaveltan alls um 0,2% milli ára sem er minnsti vöxtur síðan á fyrsta fjórðungi 2013.
Kortavelta þróast nú í auknum mæli í takt við kaupmátt launa sem bendir til að landsmenn séu síður að eyða umfram efni. Kaupmáttur launa hefur aukist um 1,1% milli ára á fyrstu tveimur mánuðum þriðja ársfjórðungs sem er tæpu prósentustigi ofar aukningunni í kortaveltu á þriðja ársfjórðungi.
Samsetning kortaveltunnar hefur tekið ákveðnum breytingum síðustu ár þar sem aukinn hluti fer fram í gegnum viðskipti erlendis, bæði í gegnum fleiri utanlandsferðir Íslendinga og aukningar netverslunar. Það sem af er ári hefur um 20% veltunnar verið erlendis og var hlutfallið til samanburðar um 11% fyrir 5 árum síðan.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Greiðslukortavelta jókst lítillega í september (PDF)