Hagsjá: Fjármál hins opinbera á tímum niðursveiflu
Samantekt
Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar var tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 5,5 ma.kr. 3. ársfjórðungi 2019, eða sem nemur 1,8% af tekjum ársfjórðungsins og um 0,7% af landsframleiðslu. Tekjur jukust um 3,4% milli ára og útgjöld um 5,9%. Sé litið á fyrstu 9 mánuði ársins var afkoman neikvæð um rúma 4 ma.kr., eða um 0,4% af tekjum ársins. Þetta er mikil afturför frá sama tíma í fyrra þegar afkoma hins opinbera var jákvæð um 3,3% af tekjum.
Þessa breytingu á afkomu má nær alfarið rekja til ríkissjóðs, en þar hefur afkoman versnað mikið milli ára. Á fyrstu 9 mánuðum 2018 var afkoman jákvæð um 5,4% af tekjum samanborið við jákvæða afkomu upp á 0,4% af tekjum í ár. Afkoma sveitarfélaganna hefur verið neikvæð um u.þ.b. 1,5% af tekjum á báðum tímabilum. Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart, m.a. í ljósi þess að slakað var á afkomumarkmiðum hins opinbera í vor með endurskoðun fjármálastefnu og nýrri fjármálaáætlun í sama anda.
Stærsti útgjaldaliður hins opinbera er launakostnaður en hann hefur numið um 34% af heildarútgjöldum hins opinbera á þessu ári. Launakostnaður sveitarfélaganna er hlutfallslega mun meiri en hjá ríkissjóði, 47,5% á þessu ári. Launakostnaður ríkissjóðs hefur verið um 23% af tekjum á sama tíma. Frá árinu 2010 hefur launakostnaður hins opinbera verið tæplega 33% af tekjum að meðaltali, um 22% hjá ríkisjóði og tæp 47% hjá sveitarfélögunum.
Mjög áberandi breytingar á útgjöldum snúa að félagslegum tilfærslum til heimila, en þær jukust um tæp 28% á 3. ársfjórðungi 2019 samanborið við síðasta ár og þá hækkun má að miklu leyti rekja til aukningar á útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sé litið á þessi útgjöld á fyrstu 9 mánuðum ársins hafa þau hækkað um tæp 19% milli ára.
Fjárfesting hins opinbera dróst saman um 3,8% á fyrstu 9 mánuðum ársins 2019 samanborið við sama tímabil fyrra árs. Fjárfestingar ríkissjóðs jukust um 7,7% milli þessara tímabila og fjárfestingar sveitarfélaganna um rúm 15%. Þetta er mun hægari þróun en umfjöllun í fjármálastefnu gefur fyrirheit um og er svo að sjá að opinber fjárfesting hafi fylgt hagvexti síðustu ára nokkuð vel.
Mikið stökk varð í fjárfestingum ríkissjóðs þegar hann tók við Hvalfjarðargöngunum á 4. ársfjórðungi 2018 og mun sú aðgerð trufla hagtölur um hríð.
Magnvísitala samneyslu hækkaði um 2,8% á fyrstu 9 mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra. Samneysla í gegnum ríkissjóð hækkaði um 1,7%, um 3,4% í gegnum sveitarfélög og 4,9% beint í gegnum almannatryggingar.
Magnvísitala almannatrygginga hefur hækkað mun meira en önnur opinber samneysla allt frá árinu 2014. Munurinn liggur fyrst og fremst í félagslegum tilfærslum til heimila, sem voru um 70 mö.kr. hærri frá almannatryggingum á fyrstu 9 mánuðum 2019 miðað við sama tíma 2013. Eins og áður segir má að miklu leyti rekja þessa aukningu til útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs. Á sama tíma höfðu tilfærslur ríkissjóðs og sveitarfélaga lækkað um rúma 6 ma.kr.
Hlutur samneyslu af vergri landsframleiðslu (VLF) hefur verið nokkuð stöðugur síðustu ár og var að meðaltali 24,3% 2009-2019. Á síðustu 4 ársfjórðungum var samneysla 24,1% af VLF og hefur því ekki breyst mikið. Samneysla í gegnum ríkissjóð var 11,8% að meðaltali 2009-2018, en 12,1% á síðustu fjórum ársfjórðungum og hefur því aukist eilítið. Að sama skapi hefur hlutur sveitarfélaganna í samneyslunni minnkað, úr 9,8% að meðaltali 2009-2019 niður í 9,3% á síðustu fjórum ársfjórðungum. Hlutur almannatrygginga í samneyslunni er nær óbreyttur.