Hagsjá: Fjárlagafrumvarp 2018 – fátt sem kemur á óvart
Samantekt
Fátt kom á óvart í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018, enda á það að vera í góðu samræmi við markmið fjármálaáætlunar fyrir árin 2018-2022 sem Alþingi samþykkti í júní. Meirihluti fjárlaganefndar sagði í raun pass við fjármálaáætluninni, lagði einungis til ýmsar vangaveltur, og Alþingi samþykkti tillögu ríkisstjórnar óbreytta.
Helsta frávikið frá fjármálaáætlun felst í því að yfirfærslu á gistiþjónustu og annarri ferðaþjónustutengdri starfsemi úr neðra þrepi í almennt þrep virðisaukaskatts er frestað frá miðju ári 2018 fram til áramóta 2018/19. Eins og áður mun stefnt að því að almennt þrep virðisaukaskatts lækki úr 24% í 22,5% um næstu áramót. Frestun á aukinni skattlagningu á ferðaþjónustu kemur ekki á óvart eftir almenna og mikla gagnrýni á þessa framkvæmd við umfjöllun um málið í vor.
Í fimmta skiptið í röð gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs á árinu. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs verði um 834 ma. kr. en gjöld um 790 ma. kr. Ríkissjóður verður þannig rekinn með 44 ma. kr. afgangi á næsta ári. Í ríkisfjármálum er hins vegar stundum langur vegur frá fjárlagafrumvarpi til endanlegs ríkisreiknings, eins og dæmin sanna. Síðustu ár hafa óreglulegir liðir eins og óvæntar arðgreiðslur, endurmat eigna og stöðuleikaframlög bætt stöðu ríkissjóðs með reglubundum hætti. Nú er gert ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs verði jákvæð um tæpa 44 ma. kr. króna sem er u.þ.b. fjórum mö.kr. meira en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Stefnt er að því að afgangur af rekstri hins opinbera verði aukinn úr 1% af VLF í 1,6% af VLF á næstu tveimur árum, m.a. til þess að vega á móti vexti eftirspurnar í hagkerfinu.
Á fyrri hluta árs 2017 hafa heildarskuldir ríkissjóðs lækkað um nálægt 200 ma. kr. Reiknað er með að skuldir muni áfram lækka hratt á árinu 2018, um 75 ma.kr. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs verði 30% í lok árs 2017 miðað við skuldareglu laga um opinber fjármál. Hreinar skuldir hins opinbera, þ.e.a.s. að sveitarfélögunum meðtöldum, verða enn umfram 30%, en ráðgert er að því marki verði náð árið 2019.
Áfram er stefnt að hraðri niðurgreiðslu skulda, enda er skuldsetning afar dýr miðað við vaxtastig á Íslandi. Vaxtagjöld eru enn stór útgjaldaliður hjá ríkissjóði og verða um 73 ma. kr. á árinu 2018.