Hagsjá: Fasteignamarkaður leitar jafnvægis
Samantekt
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,6% milli júlí og ágúst. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,5% og verð á sérbýli hækkaði um 0,7%.
Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,6% og verð á sérbýli um 3,1%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 3,6%, sem er 0,6 prósentustiga hækkun frá fyrri mánuði. Í ágúst í fyrra var árshækkunin svipuð, eða 4,1%, en í ágúst 2017 var hækkunin talsvert meiri, eða 19,1%.
Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis mældist 3,1% í ágúst og hefur raunverð fasteigna því hækkað um 0,5% á síðustu 12 mánuðum. Allt frá síðustu áramótum hefur hækkun raunverðs mælst minni en hækkun kaupmáttar launa og fasteignakaup því hagstæðari nú en oft áður. Það sem af er ári hafa árshækkanir raunverðs legið á bilinu 0-3% á sama tíma og kaupmáttaraukning launa hefur verið á bilinu 1-3%.
Upp úr miðju ári 2016 fór fasteignaverð að hækka mun hraðar en laun og almennt verðlag í landinu. Upp frá því myndaðist mikið ójafnvægi á húsnæðismarkaði sem náði hámarki um mitt ár 2017 þegar árshækkun raunverðs mældist 27% á sama tíma og kaupmáttur launa jókst um 6%. Það má því vera að markaðurinn sé að leiðrétta sig fyrir það ójafnvægi sem skapaðist með mun hóflegri hækkunum íbúðaverðs nú í samanburði við aðrar stærðir.