Hagsjá: Einstakir hlutar launavísitölunnar haga sér með svipuðum hætti
Samantekt
Launavísitalan hafði í desember hækkað um 6,9% frá desember 2016. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hefur lækkað aðeins, en þó verið nokkuð stöðugur í kringum 7% síðustu mánuði. Aukning kaupmáttar launa hefur stöðvast og hefur kaupmáttur verið nokkuð stöðugur síðustu mánuði. Kaupmáttur launa í desember var engu að síður um 5% meiri en var í desember 2016.
Sagan sýnir að launaþróun á opinbera og almenna markaðnum er mjög svipuð til lengri tíma. Til styttri tíma er alltaf um einhverjar sveiflur að ræða. Þær sveiflur jafnast alltaf út, m.a. vegna hins margumtalaða höfrungahlaups.
Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á einu ári, frá október 2016 til október 2017, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum hafa verið ívið meiri en á þeim opinbera, 7,4% á móti 6,7%. Opinberi markaðurinn er hins vegar tvískiptur þar sem launahækkanir innan sveitarfélaganna hafa verið mun meiri en hjá ríkinu. Staða kjarasamninga einstakra hópa skýrir yfirleitt þessa stöðu, t.d. hafa endurnýjun kjarasamninga BHM dregist mikið, sem aftur hefur mikil áhrif á launaþróun hjá ríkinu.
Sé litið á breytingu launa eftir starfsstéttum á einu ári má segja að myndin sé í nokkuð góðu samræmi við stöðu einstakra hópa í efnahagslífinu um þessar mundir. Laun annars vegar iðnaðarmanna og hins vegar þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hafa þannig hækkað mest á árinu, en það eru einmitt þær greinar sem þessi störf eru í sem hafa dregið vagninn í hagvexti síðustu missera. Laun stjórnenda og sérfræðinga hafa hækkað minnst á þessum 12 mánuðum.
Svipuð mynd kemur upp sé litið á þróun innan atvinnugreina. Laun hafa hækkað langmest í bygginga- og mannvirkjagerð frá október 2017 til október 2017. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem stöðug umframeftirspurn hefur verið eftir vinnuafli í þessum greinum í langan tíma.
Í nýlegri Hagsjá var fjallað um gagnrýni aðila vinnumarkaðar á Hagstofuna sem gekk út á að launavísitalan gæfi ekki rétta mynd af launaþróun í landinu. Í sérstakri yfirlýsingu hefur Hagstofan hafnað því að launavísitalan sé röng. Hagstofan bendir á að samkvæmt lögum eigi launavísitalan að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma. Því hefur verið talið að um sé að ræða verðvísitölu þar sem halda þurfi vinnutíma og samsetningu þess hóps sem liggur að baki útreikningum föstum á milli mælinga. Breyting meðallauna byggir hins vegar á launum miðað við samsetningu vinnuaflsins hverju sinni og endurspeglar því bæði breytingar á launum, vinnutíma og vinnuafli. Við mat á því hvaða mælikvarða eigi að nota hlýtur að skipta verulegu máli hvað eigi að mæla. Ef menn verða sammála um það ætti rétt aðferð að vera augljós.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Einstakir hlutar launavísitölunnar haga sér með svipuðum hætti (PDF)