Samantekt
Seðlabanki Íslands birti í gær gögn um veltu innlendra greiðslukorta í mars. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 57 mö. kr. og dróst saman um 6,9% milli ára miðað við fast verðlag, sem er mesti samdráttur sem hefur mælst síðan í janúar 2013. Erlendis nam greiðslukortavelta innlendra korta 9 mö. kr. í mars, sem er 43,2% minni velta en í mars fyrir ári síðan miðað við fast gengi. Samdráttur erlendis hefur ekki mælst meiri síðan í september 2009.
Innlend kortavelta tók ákveðnum breytingum í mars sem ber þess merki að fólk hafi haldið sig heima. Samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar (RSV) var samdráttur mestur í þeim útgjaldaliðum sem tengjast ferðalögum, svo sem kaupum á skipulögðum ferðum eða gistiþjónustu. Einnig var minna keypt af eldsneyti samanborið við marsmánuð í fyrra.
Mörgum tónleikum og viðburðum var slegið á frest og kemur því ekki á óvart að um 30% samdráttur mældist í kortaveltu á veitingastöðum og í menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi. Íslendingar versluðu einnig mun minna í fataverslunum samanborið við mars fyrir ári síðan. Samdráttur þar mældist 37% milli ára miðað við fast verðlag.
Það mældist þó ekki samdráttur innan allra útgjaldaliða kortaveltunnar, heldur jukust kaup af ákveðnu tagi talsvert. Kortavelta í raf- og heimilistækjaverslunum jókst um 27%, sem er til marks um aukinn áhuga á vörum til afþreyingar- og nytsemi meðan tíma er varið innan veggja heimilisins. Kortavelta jókst einnig í áfengisverslunum, í lyfja- og heilsuverslunum, stórmörkuðum og byggingarvöruverslunum.
Þeir útgjaldaliðir sem drógust saman að einhverju leyti mynda um 25% af heildarneyslu landsmanna samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Þeir liðir sem jukust að einhverju leyti, mynda um 27%. Það er því fyrirséð að í það minnsta helmingur af neyslu landsmanna muni verða fyrir áhrifum af Covid-19 faraldrinum og benda kortaveltugögn til þess að samdrátturinn verði meiri en aukningin. Einkaneysla mun því að líkindum dragast saman með tilheyrandi áhrifum á hagvöxt, í það minnsta fyrst um sinn meðan áhrif samkomu- og ferðatakmarkana vara.