Hagsjá: Breytingar fyrirhugaðar á leigumarkaði
Samantekt
Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 0,2% milli janúar og febrúar. 12 mánaða hækkun mælist því 4,8% og lækkar um 0,8 prósentustig frá því í janúar. Til samanburðar mældist 12 mánaða hækkun íbúðaverðs í fjölbýli 4,4% en íbúðaverð hækkaði milli mánaða í febrúar.
Leiguverð hefur hækkað nokkuð hraðar en kaupverð íbúða í fjölbýli sé litið til þróunar á síðustu tveimur árum. Í fyrra hækkaði leiguverð um 5,7% á sama tíma og íbúðaverð hækkaði um 3,6% og árið þar áður hækkaði leiguverð um 8,3% á sama tíma og íbúðaverð hækkaði um 5,5%.
Félags- og barnamálaráðherra kynnti nýverið frumvarp um breytingar á húsaleigulögum sem hefur það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Með þessu eru stjórnvöld að efna loforð sín sem gefin voru í tengslum við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á síðasta ári, svokölluðum lífskjarasamningum.
Frumvarpið felur í sér takmarkanir á hækkun leiguverðs, þar sem bundið verði í lög hvernig leigan geti þróast á leigutíma. Almenna reglan yrði sú að líða þurfi að lágmarki 12 mánuðir milli reglubundinna breytinga og er lagt til að hækkanir geti aldrei verið umfram hækkun á vísitölu neysluverðs.