Samantekt
Frá áramótum hefur Bandaríkjadalur styrkst nokkuð gagnvart evrunni. Evra kostar nú um USD 1,14 í samanburði við USD 1,25 um áramót. Eins og gildir um íslensku krónuna er til gengisvísitala fyrir Bandaríkjadal (e. U.S. Dollar Index) sem mælir verðgildi dollarsins á móti körfu gjaldmiðla helstu viðskiptalanda Bandaríkjanna. Alls hefur Bandaríkjadalur styrkst um 3,2% frá áramótum á móti þessari körfu.
Meðal þátta sem stutt hafa þessa styrkingu Bandaríkjadalsins er vaxtamunurinn. Þar er átt við mun á stýrivöxtum í viðkomandi landi og í sumum tilvikum einnig mun á ávöxtunarkröfu sambærilegra ríkisskuldabréfa í gjaldmiðlum viðkomandi landa eða gjaldmiðlasvæða. Annað sem stutt hefur við gengi Bandaríkjadals er að hann er af mörgum fjárfestum talinn tiltölulega öruggt skjól. Þegar óvissa í alþjóðaviðskiptum eykst hafa fjárfestar tilhneigingu til að færa eignir sínar yfir í Bandaríkjadal. Líklegt er að áhyggjur vegna hugsanlegs viðskiptastríðs hafi orðið til þess að fjárfestar hafi í auknum mæli fært sig yfir í Bandaríkjadal síðustu mánuði.