Hagsjá: Aukinn slaki boðaður í fjármálastefnu hins opinbera
Samantekt
Áform um þróun opinberra fjármála byggja mikið á stöðu hagkerfisins og hvers er að vænta í þeim efnum. Áform um fjármál ríkisins eru byggð á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Í nóvember 2017, þegar unnið var að gildandi fjármálastefnu, gerði Hagstofan ráð fyrir uppsöfnuðum 17% hagvexti á árunum 2018-2023. Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar frá í maí gerir hins vegar ráð fyrir 0,2% samdrætti landsframleiðslunnar í ár og uppsöfnuðum hagvexti upp á 16% á árunum 2019-2023. Á árinu 2017 var gert ráð fyrir uppsöfnuðum hagvexti upp á 13,3% 2019-2023. Til samanburðar var nú í maí gert ráð fyrir uppsöfnuðum hagvexti upp á 10,7%. Eina frávikið í langtímaspá Hagstofunnar er því árið í ár, og þar að auki varð hagvöxtur á árinu 2018 mun meiri en reiknað var með, eða sem nemur einu og hálfu prósentustigi.
Þau rök að spár um hagvöxt réttlæti breytingu á fjármálastefnu vega því ekki þungt og væntanlega hefði mátt ná fram álíka breytingum innan marka núgildandi stefnu og áætlunar.
Varðandi stöðuna nú eru aðallega uppi tvær spurningar. Í fyrsta lagi hvort um sé að ræða fullgilt tilefni til þess að endurskoða stefnuna og í öðru lagi hvort tillögur til endurskoðunar séu líklegar til þess að árangur náist.
Eins og sagði hér að framan getur breyting milli þessara tveggja þjóðhagsspáa vart talist tilefni til þess að breyta fjármálastefnu. Fjármálaráð bendir einnig á þetta og telur einnig að tillögur um endurskoðun séu að einhverju leyti tilkomnar vegna veikleika í fjármálastjórn, en ráðið hefur áður viðrað þá skoðun sína í umsögnum. Ráðið telur þannig að stjórnvöld hafi átt erfitt með að líta á töluleg markmið stefnunnar sem lágmarksviðmið fyrir afkomu. Framkvæmd stjórnvalda hafi á síðustu árum verið þannig að halda afkomu, tekju- og útgjaldaráðstöfunum við lágmarksviðmiðið. Augljós afleiðing þess er að erfitt sé að bregðast við þegar áföll dynja á eins og staðan er núna. Fjármálaráð lítur þannig á þessa framkvæmd sem veikleika í fjármálastjórn sem sé heldur ekki ein og sér ástæða til þess að endurskoða fjármálastefnuna.
Í umsögn Fjármálaráðs kemur einnig fram að sá samdráttur sem spáð er fyrir hagkerfið sé ekki einn og sér nógu mikill miðað við þann alvarleika sem lagaákvæði um endurskoðun kveður á um. Aðstæður eru hins vegar þannig nú að saman fari bæði veikleikar í fjármálastjórn og skellur í efnahagsstarfseminni. Til samans geri þessir þættir stjórnvöldum erfitt um vik að beita hefðbundnum niðurskurðarúrræðum og frekari tekjuöflun.
Fjármálaráð bendir hins vegar á að nýjar upplýsingar séu sífellt að koma fram sem geti bent til þess að þróunin verði minna hagfelld en Hagstofan spáir fyrir um, t.d. neikvæð tíðindi úr ferðaþjónustu. Óvissan framundan sé þannig mikil og talsverðar líkur á að samdrátturinn geti orðið lengri og skarpari en maíspá Hagstofunnar gefi til kynna.
Skuldir hins opinbera hafa lækkað mikið á síðustu árum og fóru undir 30% markið miðað við VLF um síðustu áramót, fyrr en gert var ráð fyrir í áætlunum. Gert er ráð fyrir því að skuldir haldi áfram að lækka, en með minni hraða en verið hefur. Það hefur gengið vel að lækka skuldir og fyrir vikið stendur hið opinbera sterkara fyrir gagnvart áföllum en ella.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Aukinn slaki boðaður í fjármálastefnu hins opinbera (PDF)









