Samantekt
Álverð hefur farið hækkandi á síðustu ársfjórðungum og var meðalverðið á áltonninu 2.126 Bandaríkjadollarar í september. Svo hátt hefur álverð ekki verið síðan í mars 2012, eða fyrir fimm og hálfu ári síðan. Í janúar á síðasta ári fór álverðið niður í tímabundið lágmark þegar verðið var 1.480 Bandaríkjadollarar en þá hafði verðið ekki verið jafn lágt síðan í miðri alþjóðlegu fjármálakreppunni á fyrsta ársfjórðungi 2009. Verðið nú í september var því 44% hærra en í janúar á síðasta ári.
Offramleiðslu má rekja til Kína
Þessar verðhækkanir að undanförnu má að töluverðu leyti rekja til þróunar í kínverskri álframleiðslu og ákvarðana sem ráðamenn í Kína hafa tekið varðandi greinina. Kínverjar eru stærstu álframleiðendur í heimi með tæplega 60% heimsframleiðslunnar. Framleiðslugetan í Kína á ársgrundvelli fór úr 5,4 milljónum tonna árið 2002 og upp í 43,7 milljónir í júní síðastliðnum. Margir hafa verið á þeirri skoðun að heimsframleiðslan hafi lengi verið of mikil og þar með framboðið. Það hefur komið niður á tekjum í greininni og afkomu en rekstur margra álvera hefur verið í járnum á síðustu árum. Kínversk stjórnvöld hafa varað við of mikilli framleiðslugetu í landinu síðan árið 2002 en ekki gripið til neinna teljandi aðgerða fyrr en nú.