Hagsjá: Airbnb bítur töluvert af hlutdeild hótela
Samantekt
Heildarfjöldi gistinátta ferðamanna á heilsárshótelum og Airbnb hér á landi nam 7,4 milljónum á síðasta ári. Um 43% af þeim voru í Airbnb en 57% á heilsárshótelum. Þessi hlutföll tóku miklum breytingum milli áranna 2016 og 2017 en hlutfall Airbnb var 29,6% árið 2016 og 70,3% á heilsárshótelum. Heildarfjöldi gistinátta í Airbnb jókst um 96% en heildarfjöldi gistinátta á hótelum jókst um 10,2%. Til samanburðar fjölgaði erlendum ferðamönnum um 24% milli ára. Heildarfjöldi gistinátta erlendra ferðamanna jókst um 10,7% milli ára á heilsárshótelum. Sé gert ráð fyrir að hlutfall erlendra ferðamanna hafi verið það sama í Airbnb eins og á heilsárshótelum fjölgaði gistinóttum erlendra ferðamanna í Airbnb um 96,6% milli ára. Alls fjölgaði gistinóttum erlendra ferðamanna um 1,4 milljón í Airbnb en talsvert minna, eða tæp 370 þúsund, á heilsárshótelum. Fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna í Airbnb var því tæplega ferfalt meiri en á heilsárshótelum.