Hagfræðin og Covid – nokkrar spurningar
Ekki er til neitt ákveðið svar við spurningunni um það af hverju sum lönd og svæði hafa farið verr út úr faraldrinum en önnur. Af hverju eru færri dauðsföll á sumum svæðum og í sumum löndum en öðrum þrátt fyrir að aðgerir og takmarkanir hafi verið minni og varað skemur.
Hagfræðin og aðrar félagsfræðigreinar hafa skoðað þessi mál jafnt og læknisfræðin og skoðað sambönd og samhengi. Þessi mál eru flókin, t.d. er viðtekin vitneskja að faraldurinn bitnar verr á eldra fólki en því yngra, en Japan passar t.d. ekki inn í þá mynd. Þar eru 28% íbúa eldri en 65 ára miðað við 9% í öllum heiminum og þar eru dauðsföll engu að síður með minna móti.
Hagfræðingar hafa staldrað nokkuð við kenninguna um að tengsl séu á milli þess hversu mikill jöfnuður eru í ákveðnum samfélögum og fjölda dauðsfalla vegna veirunnar. Jöfnuður í samfélögum er oftast mældur með svokölluðum Gini stuðli sem nær frá núlli upp í einn. Gini stuðull upp á núll sýnir fullkominn jöfnuð og stuðull upp á einn sýnir fullkominn ójöfnuð.
Þar sem ójöfnuður er meiri er t.d. talið líklegra að fólk treysti yfirvöldum síður og sé minna tilbúið til þess að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum eins og sóttvörnum, skimunum og bólusetningum.
Heimsins gæði eru mæld með fleiru en jöfnuði. Í hagfræðinni er landsframleiðsla á mann mikið notaður sem mælikvarði til þess að bera saman tekjustig þjóða. Það ætti að vera nokkuð ljóst að ríkar þjóðir séu betur í stakk búnar til þess að takast á við vanda eins og covid-faraldurinn en þær sem fátækari eru. Og ef jöfnuðinum er bætt við fæst enn skýrari mynd. Norðurlöndin eru almennt talin gott dæmi um ríkar þjóðir þar sem tiltölulega mikill jöfnuður ríkir og þeim hefur almennt vegnað nokkuð vel í þessari baráttu, en misjafnlega þó.
Sé litið á nokkur lönd innan OECD sést að fjöldi dauðsfalla pr. 100 þúsund íbúa í faraldrinum er mjög mismunandi. Lang fæst hafa dauðsföllin verið í Nýja-Sjálandi, innan við eitt á hverja 100 þúsund íbúa og flest í Ungverjalandi og Tékklandi, í kringum 300. Ísland er með þriðju bestu stöðuna og hin Norðurlöndin fyrir utan Svíþjóð eru nálægt okkur í röðinni.
Kenningin um að meiri jöfnuður leiði til færri dauðsfalla gengur vel upp hvað Norðurlöndin varðar. Jöfnuður er mestur á Íslandi af Norðurlöndunum og minnstur í Svíþjóð og það passar nokkuð vel við kenninguna um fjölda dauðsfalla. Kenningin gengur hins vegar engan veginn upp varðandi Nýja Sjáland með áberandi fæst dauðsföll, en í neðri endanum hvað jöfnuðinn varðar. Sama má segja um Tékkland þar sem jöfnuðurinn er næst mestur innan ríkjahópsins samkvæmt tölfræðinni, en fjöldi dauðsfalla næst mestur. Svipaða sögu má líka segja um Ástralíu.
Lúxemborg, Sviss og Írland eru með áberandi hæsta landsframleiðslu á mann, en í þessum ríkjum er hlutfallslega meiri alþjóðleg fjármálastarfsemi en annars staðar sem skekkir samanburð nokkuð. Norðurlöndin eru öll meðal þeirra ríkja þar sem landsframleiðsla á mann er mest. Bandaríkin eru líka ofarlega, en þar eru dauðsföll tiltölulega mörg og svipað má segja um Holland. Dauðsföll í Kanada og Ísrael eru hins vegar tiltölulega fá þó að landaframleiðsla á mann sé nálægt miðlungi.