Fyrstu kaup­end­um fækk­ar

Hlutfall fyrstu kaupenda af kaupendum íbúða hefur minnkað á síðustu mánuðum, enda hefur verð hækkað, sama gildir um vexti og Seðlabankinn hefur auk þess hert lánþegaskilyrði. Nýjum verðtryggðum lánum fjölgar, eftir að hafa nær þurrkast út í faraldrinum. Um 25% af íbúðum eru í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð. Hlutfallið hefur haldist nokkuð stöðugt í áratug.
Íbúðahús
12. desember 2022

Hækkandi húsnæðisverð, hærri vextir og þrengri lánþegaskilyrði hafa gert fólki erfiðara um vik að komast inn á fasteignamarkaðinn. Íbúðaverð hefur hækkað um 50% á þremur árum, stýrivextir hafa verið hækkaðir úr 0,75% í 6% á einu og hálfu ári og Seðlabankinn hefur hert þær kröfur sem gerðar eru til nýrra lánþega, bæði hvað varðar veðsetningu og greiðslubyrði.

Því er ekki furða þótt fyrstu kaupendur séu minni hluti af kaupendum nú en þegar hlutfallið var hæst í byrjun árs í fyrra. Þá höfðu stýrivextir verið lækkaðir niður í 0,75% til að örva hagkerfið í faraldrinum og fyrstu kaupendur hrúguðust inn á markaðinn. Eftir því sem vextir hafa hækkað og Seðlabankinn þrengt lánþegaskilyrðin hefur hlutfall fyrstu kaupenda farið lækkandi.

Lánþegaskilyrði Seðlabankans virðast hafa áhrif

Veðsetningarhlutfall er hlutfall veðsetningar fasteignar af markaðsverði hennar. Í júní 2021 lækkaði Seðlabankinn 85% hámarksveðsetningarhlutfallið í 80% fyrir alla nema fyrstu kaupendur. Ári síðar var það svo einnig lækkað fyrir fyrstu kaupendur, úr 90% í 85%. Fjármálastöðugleikanefnd fjallaði um það í júní að hækkandi fasteignaverð kæmi m.a. illa við fyrstu kaupendur og meðaltal bæði veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutfalls þeirra hefði hækkað og hætta væri því á óhóflegri skuldsetningu. Reglur um hámarksveðsetningu voru ekki síst settar á til þess að vinna gegn aukinni kerfisáhættu, en þær eru einnig til þess fallnar að slá á eftirspurn með því að draga úr aðgengi að lánsfé. Eftir að reglurnar tóku gildi má sjá að meðalveðsetningarhlutfall, bæði fyrir alla og meðal fyrstu kaupenda, hefur farið lækkandi. Þótt enn sé of snemmt að leggja mat á áhrifin áætlar Seðlabankinn í nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika að þau séu þó nokkur. Þar kemur líka fram að frá miðju ári 2020 fram á þriðja ársfjórðung 2021 hafi um 20-25% af fjárhæð lánveitinga til fyrstu kaupenda verið með veðsetningarhlutfall yfir 85%. Hlutfallið hefur þó farið lækkandi síðan, en sérstaklega hratt eftir að reglurnar voru settar.

Annað tæki sem Seðlabankinn hefur til þess að halda skuldsetningu í skefjum er að setja takmörk á greiðslubyrði lántaka sem hlutfall af ráðstöfunartekjum þeirra. Nýjar reglur tóku gildi í desember í fyrra um að hlutfallið mætti ekki vera hærra en 35% og 40% meðal fyrstu kaupenda. Í júní á þessu ári tilkynnti Seðlabankinn svo að við útreikning á hámarksgreiðslubyrði fasteignalána ætti að miða við tiltekna lágmarksvexti, 5,5% vexti fyrir óverðtryggð lán og 3% fyrir verðtryggð lán. Þar að auki var gerð breyting á hámarki lánstíma við útreikning á greiðslubyrðarhlutfalli fyrir verðtryggð lán, niður í 25 ár.

Meðaltal greiðslubyrðarhlutfalls var í kringum 19% þegar stýrivextir höfðu verið keyrðir niður í 0,75% árið 2020. Það fór svo lítillega hækkandi eftir því sem vextir hækkuðu, sérstaklega meðal fyrstu kaupenda, en tók aftur að lækka á þessu ári. Lækkunin á árinu hlýtur að skýrast fyrst og fremst af breyttum reglum, því þótt meðaltalið, bæði allra og meðal fyrstu kaupenda, sé undir hámarkinu má ætla að reglurnar um hámark dragi meðaltalið niður. Seðlabankinn áætlar að ef reglurnar hefðu verið í gildi allt síðasta ár hefði það haft áhrif á 5-7% lánveitinga alls.

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans metur það svo að lánþegaskilyrðin hafi skilað árangri og í nýjustu yfirlýsingu nefndarinnar segir meðal annars: „Dregið hefur úr misvægi á íbúðamarkaði á síðustu mánuðum samhliða því sem framboð á eignum til sölu hefur aukist og sölutími fasteigna lengst. Beiting lánþegaskilyrða hefur dregið úr nýjum áhættusömum lánveitingum og stuðlað að hærra hlutfalli eiginfjár.“

Verðtryggingin ryður sér til rúms á ný

Til þess að lækka greiðslubyrði virðast lántakar í auknum mæli bregða á það ráð að taka verðtryggt lán í stað óverðtryggðs og víst má telja að nokkur fjöldi fyrstu kaupenda kæmist nú ekki inn á eignamarkaðinn öðruvísi en með því að taka verðtryggt lán. Vextir á verðtryggðum lánum eru lægri og sveiflast minna en á óverðtryggðum og greiðslubyrðin er lægri í upphafi lánstíma. Þegar vextir voru í lágmarki í faraldrinum voru hrein ný íbúðalán lánastofnana nær öll óverðtryggð og stærstur hluti með breytilegum vöxtum. Fljótlega fóru lántakar frekar að festa vexti á óverðtryggðum lánum en nú í haust virðist þróunin hafa snúist aftur í átt að verðtryggðum lánum. Meirihluti hreinna nýrra íbúðalána innlánastofnana var verðtryggður í október og með breytilegum vöxtum. Staðan er þó enn sú að meirihluti útistandandi íbúðalána alls, óháð lánveitanda, er óverðtryggður.

Ef tekin eru saman hrein ný íbúðalán innlánastofnana og lífeyrissjóða til heimila má sjá að í október á þessu ári var lánað fyrir næstum sömu upphæð í verðtryggð og óverðtryggð lán. Í ágúst voru hrein ný verðtryggð útlán hærri en umfram- og uppgreiðslur í fyrsta sinn síðan í febrúar 2020, rétt áður en faraldurinn skall á. Staðan nú er svipuð og hún var á seinni hluta árs 2019 hvað þróun í nýjum útlánum varðar.

Fjórðungur íbúða í eigu fólks sem á fleiri en eina íbúð – hlutfallið nokkuð stöðugt

Fjórðungur af öllum íbúðum á landinu sem eru í eigu einstaklinga, eru í eigu fólks sem á fleiri en eina íbúð. Þetta má lesa út úr gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um fasteignamarkaðinn. Hlutfallið hefur hækkað smám saman frá aldamótum þegar það var 18%, en haldist nokkuð stöðugt í kringum 25% síðustu tíu ár.

Ef einstaklingur á tvær íbúðir teljast þær báðar sem „íbúðir í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð“. Sé einhver eigandi íbúðar jafnframt eigandi fleiri íbúða þá telst íbúðin í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð. Á sama tíma hefur íbúðum í eigu lögaðila fjölgað hlutfallslega en gera má ráð fyrir að inni í þeim tölum séu meðal annars íbúðir í eigu leigufélaga og íbúðir í eigu opinberra aðila, svo sem í almenna íbúðakerfinu. Nú eru 17% íbúða á landinu í eigu lögaðila.

Í stuttu máli hafa litlar breytingar orðið á eignarhaldi íbúða á síðasta áratugnum: Fjöldi íbúða í eigu fólks sem á fleiri en eina hefur sveiflast á mjög svipaðan hátt og fjöldi íbúða þeirra sem eiga eina íbúð á síðasta áratugnum. Stærstu breytingarnar á kaupendahliðinni eru þær að fyrstu kaupendum er farið að fækka hlutfallslega, eftir að hafa fjölgað ört þegar vextir voru lækkaðir eftir að faraldurinn skall á. Val á húsnæðislánum hefur á sama tíma breyst, fleiri taka verðtryggð lán til þess að lækka greiðslubyrði og færri festa vextina.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
4. sept. 2023
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit um sértryggð skuldabréf.
Bláa lónið
4. sept. 2023
Vikubyrjun 4. september 2023
Verðbólga jókst úr 7,6% í 7,7% samkvæmt ágústmælingu Hagstofunnar. Hagvöxtur mældist 4,5% á öðrum ársfjórðungi samkvæmt nýjum þjóðhagsreikningum sem Hagstofan birti í vikunni, en hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi mældist 7,1%. Minni vöxtur einkaneyslu skýrir að stórum hluta minni hagvöxt á öðrum ársfjórðungi.
Fataverslun
31. ágúst 2023
Hægir á hagvexti og einkaneysla á mann dregst saman
Hagvöxtur mældist 4,5% á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Eins og við var að búast benda tölurnar til þess að hægt hafi á hagkerfinu, en hagvöxtur mældist 7,1% á fyrsta ársfjórðungi. Vaxtahækkanir hafa tekið að tempra innlenda eftirspurn á sama tíma og hægt hefur á vexti kaupmáttar á síðustu misserum. Einkaneysla jókst örlítið en vegna hraðrar fólksfjölgunar dróst hún saman á mann.
Frosnir ávextir og grænmeti
30. ágúst 2023
Ársverðbólga eykst úr 7,6% í 7,7%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,34% milli mánaða í ágúst og við það jókst ársverðbólga úr 7,6% í 7,7%. Við eigum þó enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði og gerum nú ráð fyrir að verðbólgan verði komin niður í 6,4% í nóvember. Þetta er fyrsti mánuðurinn síðan í apríl 2021 þar sem húsnæði ber ekki ábyrgð á stærstum hluta verðbólgunnar. Nú bera bæði innfluttar vörur og þjónusta ábyrgð á stærri hluta verðbólgunnar en húsnæði.
Ferðafólk
28. ágúst 2023
Vikubyrjun 28. ágúst 2023
Í síðustu viku hækkaði Peningastefnunefnd vexti um 0,5 prósentustig. Auk þess birti SÍ Peningamál, HMS birti mánaðarskýrslu, Hagstofan birti veltu skv. VSK-skýrslum og vöru- og þjónustujöfnuð, auk þess sem nokkur uppgjör voru birt. Í þessari viku fáum við verðbólgutölur fyrir ágúst og þjóðhagsreikninga fyrir 2. ársfjórðung.
21. ágúst 2023
Vikubyrjun 21. ágúst 2023
Óleiðréttur launamunur karla og kvenna dróst saman árið 2022 frá fyrra ári úr 10,2% í 9,1%. Við útreikning á óleiðréttum mun er reiknað meðaltímakaup karla og kvenna fyrir októbermánuð hvers árs. Bæði grunnlaun og allar aukagreiðslur, eins og vegna álags eða bónusa, eru teknar með.
Fataverslun
17. ágúst 2023
Spáum 7,5% verðbólgu í ágúst
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,18% milli mánaða í ágúst og að ársverðbólga lækki úr 7,6% í 7,5%. Útsölulok hafa mest áhrif til hækkunar milli mánaða samkvæmt spánni. Það sem helst dregur spána niður er húsnæðisverð og árstíðabundin lækkun á flugfargjöldum til útlanda.
16. ágúst 2023
Spáum 0,25 prósentustiga stýrivaxtahækkun
Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki vexti bankans um 0,25 prósentustig í næstu viku. Hækkunin yrði sú fjórtánda í röð og meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, færu úr 8,75% í 9,0%.
Íbúðahús
16. ágúst 2023
Vísitala íbúðaverðs lækkar annan mánuðinn í röð
Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,8% milli mánaða í júlí. Árshækkun vísitölunnar minnkaði úr 2,7% í 0,8% og hefur ekki mælst jafn lítil síðan í janúar 2011. Undirritaðir kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu voru 17% færri í júní en í sama mánuði í fyrra.
Flugvöllur, Leifsstöð
14. ágúst 2023
Vikubyrjun 14. ágúst 2023
275 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í júlí samkvæmt tölum sem Ferðamálastofa birti fyrir helgi. Erlendir ferðamenn hafa aðeins einu sinni verið fleiri í júlímánuði, á metferðamannaárinu 2018 þegar þeir voru tæplega 279 þúsund. Brottfarir Íslendinga voru tæplega 71 þúsund talsins í júlí, fleiri en nokkurn tímann í júlímánuði.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur