Brottfarir erlendra ferðamanna voru um 233 þúsund í júní og fjöldinn því nánast sá sami og árið 2018 þegar brottfarir voru 234 þúsund. Í síðasta mánuði voru brottfarirnar um 158 þúsund. Í nýjustu Þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar frá því í apríl spáðum við því að hingað kæmu 2,1 milljón ferðamenn og renna þessar tölur frekari stoðum undir að fjöldinn gæti orðið nokkuð yfir þeirri spá.
Bandaríkjamenn langfjölmennastir
Töluverður fjöldi Bandaríkjamanna kom til Íslands í júní en Ferðamálastofa taldi 101 þúsund brottfarir. Bandaríkjamenn áttu því 43% brottfara í mánuðinum. Þar á eftir komu Þjóðverjar með tæplega 18 þúsund brottfarir. Pólverjar voru þar á eftir með 16 þúsund brottfarir, en ætla má að stór hluti þeirra sé búsettur á Íslandi. Bretar og Frakkar voru þar á eftir, báðar þjóðir með um 10 þúsund brottfarir. Þessar tölur eru þó bara um brottfarir frá Keflavíkurflugvelli og telja því ekki alla ferðamenn, til dæmis frá skemmtiferðaskipum.
Utanlandsferðir Íslendinga færri
Utanlandsferðir Íslendinga í júní voru 55 þúsund og eru nokkuð færri en í júní í fyrra þegar brottfarir voru 66 þúsund. Að árunum 2020 og 2021 undanskildum hafa utanlandsferðir Íslendinga í júnímánuði ekki verið færri síðan 2015. Eitthvað hefur því dregið úr utanlandsferðum Íslendinga og gæti þetta verið önnur vísbending um tekið hafi að hægja á einkaneyslu. Kortavelta Íslendinga innanlands dróst saman í maí, þriðja mánuðinn í röð, en kortavelta erlendis jókst um 4,5% milli mánaða. Fjöldi utanlandsferða Íslendinga stóð í stað milli ára í maí og það verður því fróðlegt að sjá hvernig kortaveltutölurnar fyrir júní munu líta út.
Fjöldi gistinátta í maí aldrei fleiri
Samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar hefur uppsafnaður fjöldi gistinátta aldrei verið meiri en í maí. Mestu munaði um aukningu í fjölda gistinótta Íslendinga sem hefur aukist hlutfallslega meira fjöldi gistinótta útlendinga.
Fjölmargir bílaleigubílar í umferð
Bílaleigubílum í umferð heldur áfram að fjölga og í júní voru rúmlega 28 þúsund bílar í umferð. Það gerir einn bílaleigubíl á hverja 8 ferðamenn sem fóru um Keflavíkurflugvöll í júní.