Fjárlög 2022 – mun betri niðurstaða en á síðasta ári
Samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum verður heildarafkoma ríkissjóðs neikvæð um 186 ma.kr. í ár. Halli ríkissjóðs verður því tæplega 5% af VLF sem er innan þess óvissusvigrúms sem er heimilt samkvæmt fjármálastefnu, en þar er hámarkið sett við 5,5% af VLF. Áætluð afkoma er því innan þeirra marka sem tilgreind eru í stefnunni og sama gildir um skuldir ríkissjóðs.
Afkoma ríkissjóðs batnar því um 140 ma.kr. milli fjárlaga áranna 2021 og 2022, en áætlanir gera nú fyrir að afkoma ársins 2021 verði um 35 mö.kr. betri en reiknað var með í fjárlögum ársins 2021.
Stjórnvöld stefna að því að auka aðhaldsstig ríkisfjármála á árinu 2022 og að reyna að draga úr hallarekstri án þess að skerða viðspyrnu hagkerfisins.
Afkomubatinn milli ára skýrist að mestu af hærri tekjum og því að margar af tímabundnum ráðstöfunum ríkissjóðs vegna heimsfaraldursins eru að renna sitt skeið. Áætlanir um tekjur hafa verið uppfærðar miðað við nýja þjóðhagsspá Hagstofunnar þar sem gert er ráð fyrir mun meiri hagvexti en reiknað var með í fjármálaáætluninni frá því í fyrra. Samtals er því reiknað með að tekjur verði 66 mö.kr. hærri en upphaflega var reiknað með.
Það eru einkum tvö málefnasvið sem skýra yfirgnæfandi hluta lækkunar að raungildi. Annars vegar 45 ma.kr. vegna vinnumarkaðar og atvinnuleysis þar sem atvinnuleysi í ár verður nær örugglega verulega minna en í fyrra miðað við horfur. Hins vegar er um að ræða 8,2 ma.kr. lækkun til samgöngu- og fjarskiptamála. Búið er að fella niður sérstakt fjárfestingarframlag til samgönguframkvæmda sem var fjármagnað með arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum og lauk átakinu á árinu 2021. Jafnframt verður dregið úr sérstöku fjárfestingarátaki sem farið var í til að mæta efnahagssamdrætti vegna heimsfaraldursins.
Margsinnis hefur verið fjallað um meint fjárfestingarátak stjórnvalda í Hagsjám og hefur niðurstaða okkar verið sú að tæplega hafi verið hægt að tala um átak í því sambandi þar sem opinber fjárfesting síðustu ára hefur ekki verið mikið meiri að raungildi en verið hefur á lengra tímabili.
Sé litið á einstaka málaflokka kemur í ljós að langmesta aukningin frá fjárlögum ársins 2021 er í sjúkrahúsaþjónustu, sem þarf ekki að koma á óvart í ljósi faraldursins. Af þeim sex málaflokkum sem aukningin er mest milli ára eru fjórir tengdir sjúkrahúsum og heilbrigðisþjónustu og er samanlögð aukning til þessara málaflokka 16,5 ma.kr. milli ára.
Framlög til málaflokksins vinnumarkaður og atvinnuleysi minnka langmest milli ára, eða um 21,4 ma.kr. Næst mesta minnkunin er svo til samgöngu- og fjarskiptamála eins og fjallað var um hér að framan.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Fjárlög 2022 – mun betri niðurstaða en á síðasta ári