Fjárlagafrumvarp 2023 – aðhald framundan
Vægi félagslegra tilfærslna ríkissjóðs hefur aukist mikið á síðustu árum, úr um 10% um aldamótin í um 15% í fyrra.
Engu að síður er róður ríkisfjármálanna tiltölulega þungur. Skömmu fyrir sumarleyfi Alþingis voru gerðar breytingar á fjármálaáætlun til að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu, þar sem umfangið í átt til samdráttar á árinu 2022 nam um 0,7% af vergri landsframleiðslu (VLF).
Fjárlagafrumvarpið heldur áfram á sömu braut. Markmiðið er að fjármálum ríkissjóðs verði hagað með þeim hætti að þau hafi hvorki þenslu- né verðbólguáhrif og áfram verði dregið úr halla á rekstri ríkissjóðs. Staðan er samt sú að ríkissjóður mun enn búa við halla á lokaári fjármálaáætlunar 2027.
Allt í rétta átt
Afkoma ríkissjóðs hefur styrkst á síðustu misserum og tekjur ríkissjóðs aukist meira og hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Reiknað er með að afkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 142 ma.kr., eða 3,9% af VLF í ár. Það er um 45 ma.kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum.
Nú er áætlað að heildartekjur ársins 2022 verði um 1.039 ma.kr., eða 28,5% af VLF. Að sama skapi er reiknað með að útgjöld verði 1.172 ma.kr., eða 32,4% af VLF. Miðað við þetta hafa tekjur aukist um 20% milli 2021 og 2022 en útgjöldin um 4,6%.
Fjárlagafrumvarp 2023
Tekjur ríkissjóðs aukast mikið milli ára bæði í krónum talið og sem hlutfall af VLF samkvæmt nýrri tekjuáætlun fyrir árið 2023. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs aukist um 8,4% á næsta ári og gjöld um 2,9%. Sé litið til tveggja ára aukast tekjur ríkissjóðs um 30,1% milli 2021 og 2023 og gjöld um 7,6%. Tekjuþróunin er því mun hagstæðari en þróun útgjalda. Það er því gert ráð fyrir hóflegum útgjaldavexti á næsta ári og samkvæmt frumvarpinu er markmiðið m.a. að verja kaupmátt og viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga.
Sé litið á heildarjöfnuð má reikna með að hallinn verði 2,3% af VLF árið 2023 miðað við 3,9% halla 2022. Afkoman mun því batna um rúmlega 50 ma.kr. milli 2022 og 2023 miðað við áætlun fyrir 2022. Tekjur ríkissjóðs munu hækka um rúmlega 85 ma.kr. milli ára en heildarútgjöld hækka um innan við 34 ma.kr. Í ár er gert ráð fyrir að hallinn verði um 140 ma.kr., sem er 45 ma.kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2022. Afkoma ríkissjóðs hefur batnað verulega frá því að heimsfaraldurinn var í hámarki, t.d. nam hallinn um 230 mö.kr. árið 2020.
Í öllum meginatriðum eru tekjur og gjöld skv. fjárlagafrumvarpinu í samræmi við þau stefnumið sem sett voru í fjármálaáætlun frá júní sl. Frumjöfnuður er eilítið lakari og vaxtajöfnuður versnar um u.þ.b. 5 ma.kr. vegna reiknaðra verðlagsáhrifa. Samanlagt er afkoman skv. frumvarpinu 6,5 mö.kr. lakari en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun.
Skuldir ríkissjóðs
Verði haldið áfram að selja hluti ríkissjóðs í Íslandsbanka munu skuldir ríkissjóðs lækka lítillega milli ára í hlutfalli af VLF. Haustið 2020 var gengið út frá því að skuldir ríkissjóðs yrðu 50% af VLF í árslok 2023. Í nýju fjárlagafrumvarpi er aftur á móti áætlað að skuldir ríkissjóðs verði einungis 33% af VLF í árslok 2023. Sala Íslandsbanka í heild myndi þannig lækka skuldir ríkissjóðs um 4–5% af VLF.
Vegna mikils halla á ríkissjóði 2020 og 2021 hækkuðu skuldir ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál úr 21,8% af VLF í árslok 2019 upp í 33,4% af VLF í árslok 2021.