Ferðamenn nálgast metfjölda

Brottfarir í mars voru mjög nálægt fjöldanum í mars síðustu tvö árin fyrir faraldur, eða 93% af fjöldanum 2018 og 95% af fjöldanum 2019. Þetta er breyting frá því í febrúar, en þá var fjöldinn 86% af fjöldanum 2018 og 92% af fjöldanum 2019. Þessar tölur eru því vísbending um að ferðamannafjöldinn nálgast það sem var á metárinu 2018.
Bretar og Bandaríkjamenn fjölmennastir
Bretar og Bandaríkjamenn voru nú sem endranær lang fjölmennastir erlendra ferðamanna með 43% hlutdeild í heildarfjöldanum, nánast sama hlutfall og í febrúar. Bretar voru fjölmennastir en fækkaði þó milli mánaða, úr tæplega 39 þúsund í 37 þúsund ferðamenn. Bandaríkjamönnum fjölgaði milli mánaða, úr rétt rúmlega 20 þúsund í tæplega 31 þúsund. Bretar hafa verið líklegri en flestar aðrar þjóðir til þess að ferðast hingað yfir vetrarmánuðina og verið fjölmennastir ferðamanna yfir þá mánuði. Bandaríkjamenn koma frekar á sumrin og eru þá fjölmennastir allra ferðamanna.
Nýlega ákváðu kínversk stjórnvöld að leyfa sölu á pakkaferðum til 40 landa og er Ísland þar á meðal. Áhrifa pakkaferðanna virðist ekki farið að gæta en fjöldi Kínverja sem hingað komu í mars var einungis um 40% af fjöldanum í sama mánuði árin 2018 og 2019.
Brottfarir Íslendinga hóflegri
Nú í mars fóru Íslendingar í 40 þúsund ferðir til útlanda. Það er 70% af fjöldanum í sama mánuði árið 2018, og 92% af fjöldanum 2019. Til samanburðar var fjöldinn í febrúar 97% af 2018 og 96% af 2019. Það sem helst gæti útskýrt þennan mun er að páskarnir 2018 byrjuðu í lok mars og ferðir í páskafríi voru því flestar farnar í marsmánuði. Fjöldi brottfara Íslendinga nú í apríl gæti orðið hlutfallslega meiri í samanburði við fyrri ár vegna tímasetningu páskanna nú.
Ferðamenn eyða meiru á mann á sama tíma og þeim fjölgar
Eftir faraldurinn jókst kortavelta á hvern ferðamann á föstu gengi og hefur haldist meiri en hún var fyrir faraldur. Ein skýring á því gæti verið sú sama og útskýrir aukna einkaneyslu Íslendinga: Fólk virðist ennþá eiga uppsafnaðan sparnað eftir faraldurinn og eru enn að ganga á hann. Við sjáum þessa þróun halda áfram í nýjustu kortaveltutölum og nú í mars er eyðsla á mann ennþá nokkuð hærri en fyrir faraldur, eða 20% hærri en hún var í mars 2019 og 4% hærri en í mars 2018 miðað við fast gengi. Það sést þó lítilsháttar samdráttur miðað við sömu mánuði í fyrra.
Fyrsti ársfjórðungur gefur góð fyrirheit
Það virðast vera nokkuð skýr tengsl milli fjölda ferðamanna og hagvaxtar hér á landi síðustu ár og því óhætt að segja að þessi fyrsti ársfjórðungur í ferðaþjónustu gefi góð fyrirheit um hagvaxtarþróun næsta árs. Ferðamenn sem komu hingað til lands á fyrsta fjórðungi þessa árs voru 176 þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra sem er svipuð aukning og sást milli ára á fjórða ársfjórðungi í fyrra, þegar hagvöxtur mældist 3,1%.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








