Ferðamenn eyða langmestu í gistingu
Á fyrstu fimm mánuðum ársins var erlend kortavelta innanlands um 108 ma.kr. á föstu verðlagi, mun meiri en á sama tíma í fyrra þegar hún var 73. ma.kr. Hafa ber í huga að ferðaþjónustan í upphafi síðasta árs var enn lituð af faraldrinum og ferðamönnum fjölgað mjög síðan þá. Því er ekki furða þótt kortavelta ferðamanna hafi aukist í takt. Á fyrstu fimm mánuðum ársins í ár komu 720 þúsund ferðamenn til landsins en þeir voru 455 þúsund í fyrra. Kortaveltan það sem af er ári er örlítið meiri en árið 2019, þá var hún 104 ma.kr og ferðamenn lítillega færri en nú, 705 þúsund á fyrstu fimm mánuðum ársins.
Gistiþjónusta stærsti útgjaldaliðurinn samkvæmt kortaveltu
Þegar kortaveltan er skoðuð eftir útgjaldaliðum má sjá að hún jókst langmest í gistiþjónustu það sem af er ári og nam 29 mö.kr. Hún hefur aldrei verið meiri að raunvirði. Tekið skal fram að greiðslukortavelta mælir ekki alla neyslu erlendra ferðamanna hér á landi og inniheldur til dæmis ekki útgjöld vegna flugs til og frá landinu sem er mjög stór kostnaðarliður í ferðalögum til landsins.
Verslun er næststærsti útgjaldaliður kortaveltu og greiðslur í verslunum námu um 17 mö.kr. á fyrstu fimm mánuðum ársins. Hún nær til dæmis yfir verslun í stórmörkuðum, fataverslun, gjafa- og minjagripaverslun og tollfrjálsa verslun. Veitingaþjónusta kemur þar á eftir þar sem kortavelta nam um 16 mö.kr á fyrstu fimm mánuðum ársins. Síðustu ár hafa úttektir á reiðufé dregist saman jafn og þétt.
Kortavelta á hvern ferðamann ennþá hærri en fyrir faraldur
Meðalkortavelta á hvern ferðamann á föstu gengi er ennþá meiri en fyrir faraldur, sem þýðir að hver ferðamaður eyðir að meðaltali meiri pening í sínum gjaldmiðli en fyrir faraldur. Það kann að skýrast af því að fólk ferðaðist minna þegar ferðatakmarkanir voru í gildi í faraldrinum, einhverjir gætu átt uppsafnaðan sparnað eftir faraldurinn eða telja sig eiga inni að gera vel við sig á ferðalögum, nú þegar hægt er að ferðast á ný. Kortavelta á hvern ferðamann var þó minni nú í maí en í maí í fyrra þegar hún var óvenjumikil, hugsanlega vegna þess að þá var ferðaþjónustan rétt að komast á skrið og áhrif þess að faraldurinn var nýgenginn yfir í hámarki. Einnig hefur skráðum gistinóttum fjölgað hlutfallslega meira en fjöldi óskráðra gistinótta eftir faraldur, sem þýðir að þeir sem hingað koma eru líklegri til að gista á hótelum en fyrir faraldur.
Ferðamenn fara þó ekki varhluta af verðbólgunni. Ef kortavelta á hvern ferðamann er skoðuð á föstu verðlagi eykst hún ekki jafnmikið og á föstu gengi, enda dregur hækkandi verðlag úr raunvirði neyslunnar. Kortavelta á hvern ferðamann á föstu verðlagi nú í maí var svipuð og hún var árið 2018.
Kortavelta á hvern ferðamann er almennt meiri á sumrin en á veturna, einfaldlega vegna þess að ferðmenn dvelja lengur á landinu.