Seðlabanki Íslands birti í gær gögn um veltu innlendra greiðslukorta í ágúst. Samanlagt jókst kortavelta um 11% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 77 mö.kr. og jókst um tæp 5% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam tæplega 15 mö.kr. og jókst um 68% milli ára miðað við fast gengi. Líkt og á allra síðustu mánuðum er vöxturinn í kortaveltu að mestu leyti tilkominn vegna aukningar í kortaveltu erlendis frá þar sem Íslendingar eru nú farnir að ferðast til útlanda í auknum mæli.
Sé miðað við ágústmánuð 2019, fyrir veirufaraldur, mælist kortaveltan erlendis frá aðeins 13% minni miðað við fast gengi. Brottfarir Íslendinga í gegnum Leifsstöð voru hins vegar tæplega 60% færri núna í ágúst samanborið við ágústmánuð fyrir tveimur árum. Það má því leiða að því líkur að þeir sem fara til útlanda nú séu að eyða meiru á mann samanborið við stöðuna fyrir tveimur árum.
Ef litið er til þess hvernig neysla Íslendinga innanlands hefur þróast má sjá að helsta breytingin frá því í ágúst í fyrra er sú að kaup á þjónustu ferðaskrifstofa hefur aukist gífurlega, eða um alls 211% milli ára miðað við fast verðlag. Þrátt fyrir þessa aukningu mælist samdráttur upp á 51% sé miðað við stöðuna eins og hún var í ágúst 2019. Við sjáum því að þó ferðahugur sé farinn að aukast, eru ferðalög enn ekki kominn á sama stað og fyrir faraldur.