Erlendir markaðir upp en sá íslenski niður í nóvember

2/3 félaga lækkaði í verði
Vísitala Aðallista Kauphallarinnar lækkaði um 0,4% í nóvember og kom sú lækkun í kjölfar 5,2% hækkunar í október. Um 14 félög af 22 á Aðallistanum, eða 2 af hverjum 3 félögum, lækkuðu í verði. 7 félög hækkuðu í verði og 1 félag stóð í stað. Mesta lækkunin var hjá Iceland Seafood eða 8,2% en félagið er með verstu 12 mánaða ávöxtun í kauphöllinni eða -55%. Næstmesta lækkunin var hjá Icelandair Group eða 6,9%. Þar á eftir kom Skel fjárfestingarfélag með 6,7% lækkun. Þrátt fyrir þá lækkun er 12 mánaða ávöxtun Skeljar sú næstmesta eða 22,1%. Stærsta félagið í Kauphöllinni, Marel, hækkaði mest eða um 8,3% en Marel hefur hins vegar lækkað næstmest í Kauphöllinni á eftir Iceland Seafood á síðustu 12 mánuðum eða um 33,4%. Næstmesta hækkunin var hjá Brim eða 7,8%. Þriðja mesta hækkunin var svo hjá Kviku banka eða 3,9%. Bréf Sýnar stóðu í stað í mánuðinum.
Rúmlega helmingur þeirra félaga sem hafa verið skráð lengur en 12 mánuði á hlutabréfamarkaðnum hér heima (10 félög) eru með jákvæða ávöxtun á síðustu 12 mánuðum. Mesta hækkunin hefur verið á Origo (28,6%), Skel fjárfestingarfélagi (22,1%) og Síldarvinnslunni (18,4%). Mesta lækkunin er sem fyrr segir á bréfum Iceland Seafood (-54,9%), Marel (-33,4%) og Kviku banka (-24,8%).
Íslenski markaðurinn lækkaði en aðrir markaðir hækkuðu
Verðþróunin á íslenska markaðnum skar sig verulega frá verðþróun hlutabréfamarkaða helstu viðskiptalanda. Þannig hækkuðu markaðir á bilinu 3,1-8,9% og var hækkunin að meðaltali 6,4%. Íslenski markaðurinn lækkaði hins vegar um 0,4%. Verðþróun hlutabréfa í Bandaríkjunum var mjög kaflaskipt í nóvember. Tölur um verðbólgu í Bandaríkjunum í október birtust 10. nóvember og voru þær nokkuð hagstæðari en markaðurinn hafði gert ráð fyrir. Áhrif þess voru mikil og jákvæð á markaðinn. Frá upphafi nóvembermánaðar og fram að birtingu verðbólgutalna lækkaði bandaríski markaðurinn um 3,2%. Frá því tölurnar birtust og fram að mánaðamótum hækkaði markaðurinn um 8,8%. Heildarhækkunin yfir mánuðinn var því 5,4%. Íslenski markaðurinn, sem hefur fylgt þeim bandaríska töluvert náið eftir á síðustu misserum, lækkaði um 3,4% fram að verðbólgutölunum og hækkaði svo um 3,4% eftir verðbólgutölurnar. Íslenski markaðurinn virðist hafa elt þann bandaríska með ákveðnari hætti en aðrir markaðir en ekki urðu jafn kaflaskiptar breytingar á þeim eins og þeim íslenska fyrir og eftir þessar verðbólgutölur.
Norski markaðurinn sá eini með jákvæða ávöxtun á síðustu 12 mánuðum
Síðustu 12 mánuði hefur ávöxtun hlutabréfamarkaða verið neikvæð víðast hvar á meðal viðskiptalanda okkar. Sé litið til helstu viðskiptalanda Íslands mælist jákvæð ávöxtun einungis á norska, japanska og breska markaðnum á síðustu 12 mánuðum. Ávöxtunin er mest í Noregi (8,2%) en síðan kemur Japan (3%) og Bretland (2,8%). Mesta lækkunin er í Þýskalandi (-20,1%), Svíþjóð (-18,5%) og í Bandaríkjunum (-10,7%). Lækkunin hér á landi er -11,2%.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








