Erlendir markaðir upp en sá íslenski niður í nóvember
2/3 félaga lækkaði í verði
Vísitala Aðallista Kauphallarinnar lækkaði um 0,4% í nóvember og kom sú lækkun í kjölfar 5,2% hækkunar í október. Um 14 félög af 22 á Aðallistanum, eða 2 af hverjum 3 félögum, lækkuðu í verði. 7 félög hækkuðu í verði og 1 félag stóð í stað. Mesta lækkunin var hjá Iceland Seafood eða 8,2% en félagið er með verstu 12 mánaða ávöxtun í kauphöllinni eða -55%. Næstmesta lækkunin var hjá Icelandair Group eða 6,9%. Þar á eftir kom Skel fjárfestingarfélag með 6,7% lækkun. Þrátt fyrir þá lækkun er 12 mánaða ávöxtun Skeljar sú næstmesta eða 22,1%. Stærsta félagið í Kauphöllinni, Marel, hækkaði mest eða um 8,3% en Marel hefur hins vegar lækkað næstmest í Kauphöllinni á eftir Iceland Seafood á síðustu 12 mánuðum eða um 33,4%. Næstmesta hækkunin var hjá Brim eða 7,8%. Þriðja mesta hækkunin var svo hjá Kviku banka eða 3,9%. Bréf Sýnar stóðu í stað í mánuðinum.
Rúmlega helmingur þeirra félaga sem hafa verið skráð lengur en 12 mánuði á hlutabréfamarkaðnum hér heima (10 félög) eru með jákvæða ávöxtun á síðustu 12 mánuðum. Mesta hækkunin hefur verið á Origo (28,6%), Skel fjárfestingarfélagi (22,1%) og Síldarvinnslunni (18,4%). Mesta lækkunin er sem fyrr segir á bréfum Iceland Seafood (-54,9%), Marel (-33,4%) og Kviku banka (-24,8%).
Íslenski markaðurinn lækkaði en aðrir markaðir hækkuðu
Verðþróunin á íslenska markaðnum skar sig verulega frá verðþróun hlutabréfamarkaða helstu viðskiptalanda. Þannig hækkuðu markaðir á bilinu 3,1-8,9% og var hækkunin að meðaltali 6,4%. Íslenski markaðurinn lækkaði hins vegar um 0,4%. Verðþróun hlutabréfa í Bandaríkjunum var mjög kaflaskipt í nóvember. Tölur um verðbólgu í Bandaríkjunum í október birtust 10. nóvember og voru þær nokkuð hagstæðari en markaðurinn hafði gert ráð fyrir. Áhrif þess voru mikil og jákvæð á markaðinn. Frá upphafi nóvembermánaðar og fram að birtingu verðbólgutalna lækkaði bandaríski markaðurinn um 3,2%. Frá því tölurnar birtust og fram að mánaðamótum hækkaði markaðurinn um 8,8%. Heildarhækkunin yfir mánuðinn var því 5,4%. Íslenski markaðurinn, sem hefur fylgt þeim bandaríska töluvert náið eftir á síðustu misserum, lækkaði um 3,4% fram að verðbólgutölunum og hækkaði svo um 3,4% eftir verðbólgutölurnar. Íslenski markaðurinn virðist hafa elt þann bandaríska með ákveðnari hætti en aðrir markaðir en ekki urðu jafn kaflaskiptar breytingar á þeim eins og þeim íslenska fyrir og eftir þessar verðbólgutölur.
Norski markaðurinn sá eini með jákvæða ávöxtun á síðustu 12 mánuðum
Síðustu 12 mánuði hefur ávöxtun hlutabréfamarkaða verið neikvæð víðast hvar á meðal viðskiptalanda okkar. Sé litið til helstu viðskiptalanda Íslands mælist jákvæð ávöxtun einungis á norska, japanska og breska markaðnum á síðustu 12 mánuðum. Ávöxtunin er mest í Noregi (8,2%) en síðan kemur Japan (3%) og Bretland (2,8%). Mesta lækkunin er í Þýskalandi (-20,1%), Svíþjóð (-18,5%) og í Bandaríkjunum (-10,7%). Lækkunin hér á landi er -11,2%.