Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 2,7% milli mars og apríl. Fjölbýli hækkaði um 2,7% og sérbýli um 2,9%. Það sem af er ári hafa hækkanir íbúðaverðs verið talsvert meiri en spár gerðu upphaflega ráð fyrir. Markaðurinn var farinn að sýna merki kólnunar seinni hluta árs í fyrra, en sú staða hefur breyst. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 22,3% samanborið við 22,2% í mars. Verð á sérbýli mælist 25,7% hærra en í apríl í fyrra og verð á fjölbýli mælist 21,5% hærra.
Í síðustu viku gaf Hagfræðideild út spá um verðbólgu í maí þar sem gert var ráð fyrir 0,8% hækkun á vísitölu neysluverðs milli mánaða og að verðbólga yrði 7,6% í maí. Húsnæði hefur verið einn helsti drifkraftur verðbólgunnar síðustu mánuði og er hækkunin sem nú sést í gögnum Þjóðskrár um íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu til þess fallin að breyta skoðun okkar og þar með spánni sem við birtum í síðustu viku. Nú teljum við að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,9% milli mánaða og að verðbólga muni mælast 7,7% í maí en ekki 7,6%.
Lesa Hagsjána í heild:









