Einkaneysla meiri en spáð var
Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs dróst neysla saman um rúm 3% milli ára sem er örlítið meiri samdráttur en á þriðja ársfjórðungi (-2,2%) en talsvert minni samdráttur en á fyrsta fjórðungi (-8,7%). Sóttvarnaraðgerðir voru harðari og lengur við lýði í þriðju bylgju faraldursins en í þeirri fyrstu en þrátt fyrir það dróst neysla mun minna saman.
Er það m.a. vegna breyttra neysluvenja þar sem fólk nýtti sér í auknum mæli netverslanir, en einnig breyttust áherslur í neyslu þar sem minna var eytt í ferðalög út fyrir landsteinana og meira innanlands. Það má ætla að neysla margra hafi verið í formi fjárfestingar til heimilis. Til marks um það jókst kortavelta einstaklinga um þriðjung í raf- og heimilistækjaverslunum og 22% í byggingarvöruverslunum milli ára í fyrra.
Þrátt fyrir nokkuð kraftmeiri neyslu en fyrstu spár og bráðabirgðatölur bentu til, eru vísbendingar um að heimilin séu að halda að sér höndum og eyði ekki um efni fram. Til marks um þetta drógust yfirdráttarlán verulega saman um leið og faraldurinn skall á og innlán jukust. Sumir eru eflaust að fresta neyslu og ætla að nýta sér þennan sparnað þegar ferðalög og samkomur verða almennari, en aðrir gætu hafa viljað koma sér upp varúðarsjóði á meðan óvissan í atvinnu- og efnahagslífinu var sem mest.