Botnfisksveiðar vega upp á móti loðnubresti
Útflutningur sjávarafurða dróst saman um 7,9% milli ára í fyrra að raunvirði. Mestu munaði um samdrátt í útflutningi á þorski og loðnu, þrátt fyrir góða loðnuvertíð. Þorskafli dróst saman um 9% milli ára í fyrra en hann hefur minnkað stöðugt síðustu ár. Ráðgjöf um hámarksafla þorsks fyrir yfirstandandi veiðitímabil er aftur á móti 1% hærri en í fyrra og horfur eru á lítillega auknum þorskheimildum næstu ár. Töluverðar sveiflur hafa orðið í veiðiheimildum á loðnu síðustu ár og þar með veiddum afla. Vel hefur verið veitt af loðnu síðustu þrjú ár, en í ár verður hins vegar ekkert veitt þar sem leiðangrar leiddu í ljós að ekki væri næg loðna til staðar. Eitthvað verður þó flutt út af loðnuafurðum, þar sem miklar birgðir söfnuðust upp í síðustu vertíð sem gera má ráð fyrir að fluttar verði út í ár.
Útflutningsverðmæti dregist saman á fyrsta fjórðungi ársins
Útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild voru 5% minni á fyrsta fjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra, mælt á föstu gengi. Samdráttinn má að langmestu leyti rekja til 27% minni útflutningsverðmæti uppsjávarafurða, að mestu vegna loðnubrests. Á móti vegur að útflutningsverðmæti síldar var um 41% meira á fyrsta fjórðungi í ár en í fyrra. Þá hefur mikið verið veitt af kolmunna frá byrjun árs. Útflutningsverðmæti botnfisksafurða jukust um 5% á fyrsta fjórðungi ársins, á föstu gengi. Mestu munar um 4% aukningu útflutningsverðmæta af þorskafurðum, og 9% aukningu í verðmætum ýsuafurða. Fyrsti fjórðungur ársins var því nokkuð góður, að loðnibresti undanskildum sem þó vegur þungt.
Verð sjávarafurða verið stöðugt
Verð sjávarafurða hækkaði nokkuð hratt frá byrjun árs 2021 og náði hámarki í byrjun árs 2023, sé miðað við verðvísitölu sjávarafurða. Hækkunina má að mestu rekja til hækkunar á vísitölu botnfisksafurða. Vísitalan hefur lækkað frá hæstu gildum en verið þó nokkuð stöðug síðustu 12 mánuði eða svo, þar sem smávægileg lækkun á botnfisksafurðum er vegin upp með hækkun á verði uppsjávarafurða.
Spáum hóflegum vexti í útflutningi sjávarafurða
Í nýlegri hagspá gerum við ráð fyrir að útflutningur vaxi í heild um 2,9% og að vöxtur útflutningsframleiðslu sjávarafurða verði um 2% í ár, eftir 7,9% samdrátt milli ára í fyrra. Við gerum ráð fyrir að auknar aflaheimildir á helstu botnfisktegundum, ásamt auknum aflaheimildum fyrir síld og kolmunna, vegi upp loðnubrest. Þá söfnuðust upp óvenju miklar birgðir af loðnuhrognum eftir síðustu loðnuvertíð sem við gerum ráð fyrir að verði fluttar út í á þessu ári.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.