Batamerki á vinnumarkaði
Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands er áætlað að um 206.200 manns hafi verið á vinnumarkaði í apríl 2021, sem jafngildir 78,4% atvinnuþátttöku. Af fólki á vinnumarkaði voru um 184.000 starfandi og um 22.200 atvinnulausir og í atvinnuleit, eða um 10,8% af vinnuaflinu. Starfandi fólki fækkaði um 3.600 milli ára og atvinnulausum fjölgaði um 6.900. Hlutfall starfandi var 69,9% í apríl og hafði hækkað um 2,4 prósentustig frá apríl 2020.
Í apríl í fyrra fór atvinnuþátttaka niður í 73,4% og hafði ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003, þegar vinnumarkaðskönnunin hófst. Atvinnuþátttaka hefur sveiflast nokkuð síðan, í samræmi við stöðu sóttvarna á hverjum tíma, og mældist nú 78,4% sem er heilum 5 prósentustigum hærra en á sama tíma í fyrra. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er nú rétt undir 78% og hefur atvinnuþátttaka aukist nokkuð síðustu mánuði.
Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 10,8% í apríl sem er 2,8 prósentustigum hærra en á sama tíma í fyrra. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 10,4% í apríl og hafði aukist um 2,9 prósentustig milli ára. Því til viðbótar var atvinnuleysi vegna hlutabóta mælt sem 1,1% í apríl og samanlagt atvinnuleysi því 11,5%. Atvinnuleysi var óvenju mikið í apríl samkvæmt mælingu Hagstofunnar og er líkleg skýring að námsmenn séu snemma á ferðinni í ár í leit að sumarstörfum.
Starfandi fólki í apríl fjölgaði um 4,5% miðað við fyrra ár. Á sama tímabili styttist vinnutími um 2,9% þannig að heildarvinnustundum fjölgaði um 1,6% milli ára. Heildarvinnustundum fjölgaði einnig lítillega milli ára í febrúar, en annars hafði verið um fækkun vinnuaflsstunda að ræða í hverjum mánuði allt frá upphafi ársins 2020.
Nú er liðið rúmt ár síðan kórónuveirufaraldurinn fór að hafa veruleg áhrif á íslenskan vinnumarkað. Það á sérstaklega við um atvinnuleysið, sem aldrei hefur verið meira, en aðrar stærðir, eins og fjöldi og hlutfall starfandi, atvinnuþátttaka og vinnuaflsnotkun, hafa einnig þróast í neikvæða átt á þessum tíma.
Ýmislegt bendir þó til þess að botninum sé náð, að bjartara sé framundan og að vinnumarkaðurinn fari að styrkjast aftur. Þó mæling Hagstofunnar á atvinnuleysi hafi verið óvenju há í apríl má benda á að niðurstöður hennar eru oft sveiflukenndar. Mælingar Vinnumálastofnunar á skráðu atvinnuleysi eru sífellt að þokast niður á við. Þar mun viðleitni stjórnvalda til að fjölga störfum, m.a. með ráðningarstyrkjum, skipta máli, en einnig árangur í bólusetningu og auknir möguleikar á opnun landsins og vaxandi komur ferðamanna. Þá sýna niðurstöður Hagstofunnar nú að atvinnuþátttaka og vinnuaflsnotkun eru á réttri leið.