Aukinn halli af vöruviðskiptum í fyrra

Halli á vöruviðskiptum mældist 43,8 ma.kr. í desember, en var 28,1 ma.kr. í sama mánuði árið áður, á verðlagi hvers árs, samkvæmt nýútgefnum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Vöruútflutningur var nokkuð kröftugur í desember og jókst um 19,2% á milli ára en sömuleiðis var mikill innflutningur í mánuðinum og verðmæti vöruinnflutnings jukust um 29,5% á verðlagi hvers árs. Á árinu öllu mældist vöruskiptahalli 398,5 ma.kr., en var til samanburðar um 368,3 ma.kr. á árinu 2023. Vöruskiptahalli jókst því á árinu, en ekki með sama hraða og síðustu tvö ár. Halli á vöruviðskiptum er viðbúinn, en síðustu ár hefur verið viðvarandi vöruskiptahalli. Á sama tíma hafa þjónustuviðskipti skilað ríflegum afgangi.
Meiri innflutningur merki um aukin umsvif?
Staðan í vöruviðskiptum gefur oft ágætis mynd af því sem er að gerast í hagkerfinu. Minni aukning á vöruskiptahalla getur verið merki um að jafnvægi sé að aukast í hagkerfinu. Á móti hafa verðmæti vöruinnflutnings aldrei mælst meiri en í fyrra. Mesta aukningin var í innflutningi á fjárfestingarvörum og hrá- og rekstrarvörum, sem gefur frekar til kynna aukin umsvif. Innflutningur á fjárfestingarvörum jókst til að mynda um 94% í desember síðastliðnum, sem rekja má til uppbyggingar á gagnaverum. Þó aukinn halli á vöruviðskiptum þýði að öðru óbreyttu minna framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar fyrir síðasta ár bendir aukinn innflutningur á fjárfestingarvörum til aukinnar fjárfestingar sem ætti að skila sér næstu ár í aukinni framleiðni og meiri útflutningsframleiðslu og þar með auknum hagvexti.
Kröftugur útflutningur í desember
Útflutningur í desember var sem fyrr segir nokkuð kröftugur þar sem útflutningsverðmæti jukust um tæplega 20% frá desember 2023. Útflutningsverðmæti jukust í öllum greinum nema í álútflutningi. Útflutningsverðmæti sjávarafurða jukust um 30% á milli ára í desember á verðlagi hvers árs en drógust saman um tæplega 2% á árinu í heild. Loðnubrestur hafði töluverð áhrif á útflutning sjávarafurða á nýliðnu ári, en á móti skiluðu auknar aflaheimildir á botnfiski, þorski og ýsu minni samdrætti útflutningsverðmæta en ella. Útflutningsverðmæti áls og álafurða drógust saman í desember um 9,8% á verðlagi hvers árs og drógust saman um 3,4% á árinu í heild. Raforkuskerðingar höfðu áhrif á árinu en á móti hækkaði heimsmarkaðsverð á áli á árinu um 7,4%, þar af langmest á seinni hluta ársins. Í desember var heimsmarkaðsverð á áli rúmlega 15% hærra en í desember 2023.
Mikil aukning í útflutningi lyfja
Töluverð aukning var á útflutningi lyfja og lækningavara á síðasta ári og jukust verðmætin um tæplega 30 ma.kr. á milli ára, eða um 54,6%. Einnig var nokkur kraftur í útflutningi á eldisfiski á árinu og jukust útflutningsverðmætin um 16,7% á milli ára eftir samdrátt árið 2023. Samtals var hlutur þessara tveggja útflutningsgreina 14% af vöruútflutningi í fyrra og var til samanburðar aðeins 7% árið 2022.
Mest aukning í innflutningi á fjárfestingarvörum
Verðmæti vöruinnflutnings jukust um 29% á milli ára í desember á verðlagi hvers árs og á árinu öllu jukust verðmæti vöruinnflutnings um 3,9%. Sem fyrr segir jókst innflutningur á fjárfestingarvörum um 94% á milli ára í desember, sem má rekja til til uppbyggingu gagnavera. Fleiri stór fjárfestingarverkefni standa yfir, til dæmis í tengslum við landeldi, og á árinu öllu jókst innflutningur á fjárfestingarvörum um 14,6%. Innflutningsverðmæti hrá- og rekstrarvara jukust einnig töluvert í desember, eða um 41%, og á árinu öllu um tæplega 10% á verðlagi hvers árs.
Hvað neysluvörur varðar jókst innflutningur um 9,4% í desember og um 4,1% á árinu öllu. Það er í takt við kortaveltu landsmanna sem var nokkuð kröftug í fyrra þrátt fyrir háa vexti. Á móti dróst innflutningur á fólksbílum töluvert saman á árinu og var aðeins helmingurinn af því sem hann var árið 2023.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









