Atvinnuleysi óbreytt milli október og nóvember - minnkun á höfuðborgarsvæðinu
Skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar sl. þegar það var 11,6%. Atvinnuleysið hefur því minnkað um 6,7 prósentustig frá því í janúar. Í nóvember 2020 var almennt atvinnuleysi 9% og það hefur því minnkað um 4,1 prósentustig á einu ári.
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði svipað í desembermánuði og var í nóvember.
Almennt atvinnuleysi jókst alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu milli október og nóvember. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu minnkaði um 0,1 prósentustig milli mánaða en jókst um 0,1-0,5 prósentustig á öðrum svæðum, mest á Norðurlandi eystra um 0,5 prósentustig. Atvinnuleysi er eftir sem áður langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, en það hefur nú verið undir 10% á Suðurnesjum í fjóra mánuði, en hæst fór það í 24,5% í janúar 2021. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum var þó enn yfir 10% í nóvember, var 10,4%.
Atvinnuleysi er lægra meðal kvenna en karla á þremur svæðum: á höfuðborgarsvæðinu, á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Munurinn var mestur milli kynjanna á Suðurnesjum, 1,5 prósentustig körlum í hag og hefur sá munur minnkað. Þar var 10,4% atvinnuleysi hjá konum og 8,9% hjá körlum. Á Suðurlandi var atvinnuleysið einnig talsvert meira meðal kvenna en karla, eða 4,1% hjá konum en 2,9% hjá körlum.
Á milli október og nóvember fækkaði atvinnulausum í opinberri þjónustu, verslun, sérfræðiþjónustu, farþegaflutningum og í upplýsingatækni á bilinu 1- 7%. Atvinnulausum fjölgaði aftur á móti lítilsháttar í sjávarútvegi, byggingariðnaði, gistiþjónustu og ýmiss konar þjónustustarfsemi. Hvað starfsstéttir varðar fækkaði atvinnulausum aðallega meðal sérfræðinga og einnig meðal sérmenntaðra, í þjónustustörfum og í sölu- og afgreiðslustörfum. Atvinnulausum fjölgaði hins vegar meðal verkafólks, og iðnaðarmanna.
Atvinnuleysi er nú komið á sama stað og var í janúar 2020 áður en faraldurinn skall á. Staðan er þó að mörgu leyti öðruvísi og enn frekar óviss. Góður árangur í baráttunni við atvinnuleysið hefur ekki hvað síst náðst með mikilli notkun ráðningarstyrkja. Svo virðist sem ráðningarsambönd á grundvelli þessara styrkja hafi haldið nokkuð vel eins reynsla fyrri ára hefur sýnt.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Atvinnuleysi óbreytt milli október og nóvember - minnkun á höfuðborgarsvæðinu