Atvinnuleysi óbreytt í febrúar – minnkar væntanlega næstu mánuði
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í febrúar 5,2% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði. Alls voru 10.211 á atvinnuleysisskrá í lok febrúar, 5.791 karl og 4.420 konur.
Skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar 2021 þegar það var 11,6% og hefur því minnkað um 6,4 prósentustig síðan.
Atvinnuleysi breyttist ekki mikið á flestum stöðum á milli janúar og febrúar. Atvinnuleysi minnkaði mest um 0,4 prósentustig á Norðurlandi eystra og um 0,3 prósentustig á Suðurnesjum. Atvinnuleysi er áfram langmest á Suðurnesjum, en það hefur nú verið undir 10% á Suðurnesjum í sjö mánuði, en hæst fór það í 24,5% í febrúar 2021. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum fór í fyrsta skipti niður fyrir 10% í febrúar en hæst fór það í 28,5% í febrúar 2021.
Atvinnuleysi karla jókst eilítið á milli janúar og febrúar og atvinnuleysi kvenna var óbreytt. Atvinnuleysi karla í febrúar var 5,3% á meðan það var 5,0% meðal kvenna. Atvinnuleysi meðal kvenna var meira en karla fram eftir árinu 2021, en í nóvember tóku karlarnir fram úr og hefur munurinn aukist lítillega síðan. Munurinn á atvinnuleysi karla og kvenna er mestur á Suðurlandi, en þar er atvinnuleysið 1,3 prósentustigum hærra meðal karla. Á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi karla 0,8 prósentustigum meira en kvenna og ráða þær tölur auðvitað miklu um niðurstöðuna fyrir landið allt.
Fjöldi nýrra auglýstra starfa hjá Vinnumálastofnun hefur verið nokkuð stöðugur síðustu mánuði, á bilinu 4-500. Þetta er nokkuð minna en var á tímabilinu mars til september í fyrra þegar átak í atvinnumálum hófst, en töluvert meira en var í upphafi ársins 2021.
Enn sem komið er flokkast stór hluti þessara starfa sem átaks- og reynsluverkefni. Þannig hafa um þrír fjórðu hlutar nýrra auglýstra starfa verið átaks- og reynsluverkefni fyrstu tvo mánuði ársins 2022. Hæst fór þetta hlutfall í næstum 100% í apríl og maí 2021, en hefur farið lækkandi síðan, reyndar með nokkrum sveiflum.
Atvinnuleysi hefur nú verið svipað í sex mánuði og lítið eitt meira en var í febrúar 2020, áður en faraldurinn skall á. Góður árangur í baráttunni við atvinnuleysið hefur ekki hvað síst náðst með mikilli notkun ráðningarstyrkja. Ráðningarsambönd á grundvelli þessara styrkja hafa haldið nokkuð vel eins og reynsla fyrri ára hefur sýnt.
Óvissan er þó mikil, aðallega vegna stríðsátaka og stöðunnar í heimshagkerfinu. Líklegt er að hingað komi fjöldi flóttamanna frá Úkraínu, en til lengri tíma gætu margar vinnandi hendur fylgt þeirri þróun, eitthvað sem okkur Íslendinga vantar oft.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Atvinnuleysi óbreytt í febrúar – minnkar væntanlega næstu mánuði