Atvinnuleysi minnkar og launaþróun á pari við verðbólgu
Atvinnuleysi mældist 3,0% í maí og fór úr 3,3% í apríl. Það er eðlilegt að atvinnuleysi minnki eftir því sem nær dregur sumri og við búumst við að áfram dragi úr atvinnuleysi í júní og júlí. Árstíðasveiflur skýrast meðal annars af auknum umsvifum ýmissa atvinnugreina á sumrin, ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Það var einmitt í ferðaþjónustu sem atvinnulausum fækkaði mest í mánuðinum, um 16%, og næstmest í byggingariðnaði, um 8%.
Innflytjendur aldrei stærra hlutfall launafólks
Spenna á vinnumarkaði og skortur á starfsfólki hefur kallað á síaukinn aðflutning launafólks hingað til lands. Innflytjendur hafa aldrei verið stærri hluti þeirra sem starfa á íslenskum vinnumarkaði, en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var hlutfallið 22%. Til samanburðar var það 19% þegar mest lét fyrir faraldurinn.
Hlutfall innflytjenda er mest í greinum tengdum ferðaþjónustu, þá sérstaklega í rekstri gististaða, þar sem það er 67%. Í fiskiðnaði er hlutfall innflytjenda 58% og í matvæla- og drykkjariðnaði 49%.
Eftirspurn eftir vinnuafli er enn mikil, þótt almennt hafi dregið örlítið úr henni á allra síðustu mánuðum. Það eru helst stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu og byggingariðnaði sem sjá fyrir sér að fjölga starfsfólki á næstu mánuðum, samkvæmt könnun sem Gallup gerir reglulega fyrir Seðlabankann. Nýjustu gögn eru frá marsmánuði og samkvæmt þeim vildu 55% stjórnenda fyrirtækja í byggingariðnaði fjölga starfsfólki og 60% stjórnenda í ferðaþjónustu, samgöngum og flutningum.
Áfram má búast við að launavísitalan hækki lítillega í maí og júní, enda teygðust kjaraviðræður félaga í BSRB fram í júnímánuð. Jafnvel má gera ráð fyrir lítilsháttar hækkunum í júlí vegna spennu á vinnumarkaði og við það myndi tólf mánaða hækkun launa aukast lítillega, enda lækkaði vísitalan örlítið í júní og júlí í fyrra.
Kaupmáttur stendur í stað
Verðbólgan hefur haldið áfram að éta upp launahækkanir, sem sést á því hversu stöðugur kaupmáttur launa hefur haldist þrátt fyrir að laun hafi hækkað um 9,5% á síðustu tólf mánuðum. Launahækkanirnar þýða þannig ekki að launafólk geti keypt 9,5% meira fyrir launin sín en fyrir ári síðan. Í apríl hafði verðlag hækkað örlítið meira en launastigið á tólf mánuðum, um 9,9%, og kaupmáttur launa því dregist saman um 0,4%.
Verðbólgan var í upphafi ekki síst drifin áfram af húsnæðisverðshækkunum. Brattar vaxtalækkanir í faraldrinum greiddu fyrir aðgengi að lánsfé, eftirspurn eftir húsnæði til kaupa tók hratt við sér og verðið rauk upp. Vaxtalækkanir höfðu þó ekki aðeins áhrif á húsnæðismarkað heldur ýttu einnig almennt undir innlenda eftirspurn og sköpuðu verðbólguþrýsting, sem þá þegar hafði látið á sér kræla, meðal annars vegna gengislækkunar í faraldrinum og innfluttrar verðbólgu.
Í mikilli verðbólgu er viðbúið að launafólk krefjist meiri launahækkana en ella, til að viðhalda kaupmætti. Þegar síðustu kjaraviðræður fóru af stað var verðbólga komin upp í tæp tíu prósent og á sama tíma var mikil spenna á vinnumarkaði, atvinnuleysi lítið og skortur á vinnuafli, sem almennt bætir samningsstöðu launafólks. Launahækkanir síðustu mánaða hafa án efa kynt undir og viðhaldið verðbólgunni - hærri laun hafa ýtt undir kröftuga innlenda eftirspurn sem gerir fyrirtækjum kleift að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag.
Nú styttist óðum í næstu kjaraviðræður og eftir því sem verðbólgan verður þrálátari eykst hættan á því að víxlverkun launa og verðlags þyngi baráttuna gegn verðbólgu. Þegar verðlag hefur hækkað vill launafólk hærri laun og með hærri launakostnaði vilja fyrirtæki hærra verð fyrir vörur og þjónustu.