At­vinnu­leysi minnk­ar og launa­þró­un á pari við verð­bólgu

Atvinnuleysi dróst saman í maí og stendur nú í 3%. Það var 3,3% í apríl og 3,9% í maí í fyrra. Laun hafa haldið áfram að hækka eftir því sem fleiri hópar undirrita kjarasamninga og í apríl hafði launavísitalan hækkað um 9,5% á tólf mánuðum. Kaupmáttur hefur svo gott sem staðið í stað frá því um mitt síðasta ár, en þar áður hafði kaupmáttur aukist samfleytt í 12 ár.
12. júní 2023

Atvinnuleysi mældist 3,0% í maí og fór úr 3,3% í apríl. Það er eðlilegt að atvinnuleysi minnki eftir því sem nær dregur sumri og við búumst við að áfram dragi úr atvinnuleysi í júní og júlí. Árstíðasveiflur skýrast meðal annars af auknum umsvifum ýmissa atvinnugreina á sumrin, ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Það var einmitt í ferðaþjónustu sem atvinnulausum fækkaði mest í mánuðinum, um 16%, og næstmest í byggingariðnaði, um 8%.

Innflytjendur aldrei stærra hlutfall launafólks

Spenna á vinnumarkaði og skortur á starfsfólki hefur kallað á síaukinn aðflutning launafólks hingað til lands. Innflytjendur hafa aldrei verið stærri hluti þeirra sem starfa á íslenskum vinnumarkaði, en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var hlutfallið 22%. Til samanburðar var það 19% þegar mest lét fyrir faraldurinn.

Hlutfall innflytjenda er mest í greinum tengdum ferðaþjónustu, þá sérstaklega í rekstri gististaða, þar sem það er 67%. Í fiskiðnaði er hlutfall innflytjenda 58% og í matvæla- og drykkjariðnaði 49%.

Eftirspurn eftir vinnuafli er enn mikil, þótt almennt hafi dregið örlítið úr henni á allra síðustu mánuðum. Það eru helst stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu og byggingariðnaði sem sjá fyrir sér að fjölga starfsfólki á næstu mánuðum, samkvæmt könnun sem Gallup gerir reglulega fyrir Seðlabankann. Nýjustu gögn eru frá marsmánuði og samkvæmt þeim vildu 55% stjórnenda fyrirtækja í byggingariðnaði fjölga starfsfólki og 60% stjórnenda í ferðaþjónustu, samgöngum og flutningum.

Launavísitalan hækkar enn

Lítið atvinnuleysið og kröftug eftirspurn eftir starfsfólki bætir samningsstöðu launafólks og myndar launaþrýsting. Launavísitalan hækkaði um 1,6% í apríl, en stór hluti opinbera vinnumarkaðarins undirritaði kjarasamninga í mánuðinum. Hún hafði hækkað um tæpt prósent mánuðinn á undan, minna í febrúar og janúar, en um heil 4% í desember þegar samningar á stærstum hluta almenna vinnumarkaðarins voru samþykktir.

Áfram má búast við að launavísitalan hækki lítillega í maí og júní, enda teygðust kjaraviðræður félaga í BSRB fram í júnímánuð. Jafnvel má gera ráð fyrir lítilsháttar hækkunum í júlí vegna spennu á vinnumarkaði og við það myndi tólf mánaða hækkun launa aukast lítillega, enda lækkaði vísitalan örlítið í júní og júlí í fyrra.

Kaupmáttur stendur í stað

Verðbólgan hefur haldið áfram að éta upp launahækkanir, sem sést á því hversu stöðugur kaupmáttur launa hefur haldist þrátt fyrir að laun hafi hækkað um 9,5% á síðustu tólf mánuðum. Launahækkanirnar þýða þannig ekki að launafólk geti keypt 9,5% meira fyrir launin sín en fyrir ári síðan. Í apríl hafði verðlag hækkað örlítið meira en launastigið á tólf mánuðum, um 9,9%, og kaupmáttur launa því dregist saman um 0,4%.

Verðbólgan var í upphafi ekki síst drifin áfram af húsnæðisverðshækkunum. Brattar vaxtalækkanir í faraldrinum greiddu fyrir aðgengi að lánsfé, eftirspurn eftir húsnæði til kaupa tók hratt við sér og verðið rauk upp. Vaxtalækkanir höfðu þó ekki aðeins áhrif á húsnæðismarkað heldur ýttu einnig almennt undir innlenda eftirspurn og sköpuðu verðbólguþrýsting, sem þá þegar hafði látið á sér kræla, meðal annars vegna gengislækkunar í faraldrinum og innfluttrar verðbólgu.

Í mikilli verðbólgu er viðbúið að launafólk krefjist meiri launahækkana en ella, til að viðhalda kaupmætti. Þegar síðustu kjaraviðræður fóru af stað var verðbólga komin upp í tæp tíu prósent og á sama tíma var mikil spenna á vinnumarkaði, atvinnuleysi lítið og skortur á vinnuafli, sem almennt bætir samningsstöðu launafólks. Launahækkanir síðustu mánaða hafa án efa kynt undir og viðhaldið verðbólgunni - hærri laun hafa ýtt undir kröftuga innlenda eftirspurn sem gerir fyrirtækjum kleift að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag.

Nú styttist óðum í næstu kjaraviðræður og eftir því sem verðbólgan verður þrálátari eykst hættan á því að víxlverkun launa og verðlags þyngi baráttuna gegn verðbólgu. Þegar verðlag hefur hækkað vill launafólk hærri laun og með hærri launakostnaði vilja fyrirtæki hærra verð fyrir vörur og þjónustu.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Flutningaskip
8. nóv. 2024
Hægir á vexti vöruskiptahallans
Halli á vöruviðskiptum jókst lítillega á milli ára í október og mældist 49,4 ma.kr, en var 47,5 ma.kr. í október í fyrra. Uppsafnaður halli á vöruskiptum hefur aukist frá fyrra ári, en þó hægar í ár en síðustu ár, og var 330 ma.kr. í október, sem er einungis lítillega meira en mældist á sama tíma í fyrra þegar hann var 320 ma.kr.
Bílar
6. nóv. 2024
Minni spenna á vinnumarkaði en lítil breyting á atvinnuleysi
Staðan á vinnumarkaði hefur haldist merkilega stöðug í gegnum hraðar breytingar í hagkerfinu og þrátt fyrir vaxtahækkanir síðustu ára hefur atvinnuleysi lítið aukist. Þó eru vísbendingar um að eftirspurn eftir launafólki hafi minnkað og laun hækka ekki jafn hratt og áður. Óvissa hefur aukist lítillega síðustu daga vegna átaka á opinberum vinnumarkaði.
5. nóv. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - október 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Ferðamenn við Strokk
5. nóv. 2024
Ágætur þriðji fjórðungur í ferðaþjónustu
Ferðamönnum fjölgaði um tæplega prósent á þriðja ársfjórðungi, stærsta ferðaþjónustutímabili ársins, frá fyrra ári. Gistinóttum ferðamanna fækkaði hins vegar um tæpt prósent, en kortavelta á föstu verðlagi jókst um 2% á milli ára.
Fjölbýlishús
4. nóv. 2024
Þörf á íbúðum og ágætis uppbygging í kortunum 
Íbúðafjárfesting hefur færst í aukana, starfsfólki fjölgar sífellt í byggingarstarfsemi, velta í greininni hefur aukist síðustu árin og innflutningur á byggingarefni er í hæstu hæðum. Íbúðauppbygging virðist nokkuð kröftug, enda er þörfin brýn - kjarnafjölskyldum hefur fjölgað mun hraðar en íbúðum síðustu ár. 
Flutningaskip við Vestmannaeyjar
4. nóv. 2024
Vikubyrjun 4. nóvember 2024
Verðbólga lækkaði úr 5,4% niður í 5,1% í október, í samræmi við væntingar. Samhliða birtingu VNV tilkynnti Hagstofan að fyrirhugað kílómetragjald yrði tekið inn í vísitöluna. Í þessari viku birtir Vinnumálastofnum skráð atvinnuleysi í október, kosið verður um nýjan forseta í Bandaríkjunum, Seðlabanki Bandaríkjanna og Englandsbanki tilkynna um vaxtaákvarðanir og uppgjörstímabilið í Kauphöllinni er áfram í fullum gangi.
1. nóv. 2024
Fréttabréf Greiningardeildar 1. nóvember 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Fjölskylda við sumarbústað
30. okt. 2024
Verðbólga lækkar áfram og mælist 5,1% í október
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,28% á milli mánaða í október og verðbólga lækkar því úr 5,4% í 5,1%. Verð á mat og drykkjarvörum og flugfargjöld til útlanda höfðu mest áhrif til hækkunar. Reiknuð leiga hækkaði mjög lítið á milli mánaða. Kílómetragjald á bensín- og olíubíla verður með í verðmælingum Hagstofunnar.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
28. okt. 2024
Vikubyrjun 28. október 2024
Í vikunni birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir októbermánuð. Þessar verðbólgutölur verða þær síðustu fyrir næstu vaxtaákvörðun sem verður tilkynnt þann 20. nóvember nk. Í síðustu viku birti Hagstofan veltu skv. VSK-skýrslum, niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn og launavísitölu. Þá er uppgjörstímabilið í kauphöllinni áfram í fullum gangi.
Vélsmiðja Guðmundar
23. okt. 2024
Velta í hagkerfinu eykst og tæknigreinar draga vagninn
Velta í hagkerfinu jókst um 2,1% á milli ára í júlí og ágúst að raunvirði, samkvæmt virðisaukaskattskýrslum. Svo mikið hefur veltan ekki aukist frá því á VSK-tímabilinu janúar-febrúar árið 2023, þegar hagkerfið var enn að rétta úr kútnum eftir covid-samdráttinn.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur