Atvinnuleysi minnkaði um 0,6% í ágúst og mun væntanlega minnka áfram
Vinnumálastofnun spáir því að áfram dragi úr almennu atvinnuleysi og að það verði á bilinu 5,1-5,4% í september, m.a. vegna árstíðasveiflu. Búist er við að 2-300 einstaklingar geti komið til baka á atvinnuleysiskrá í september eftir að ráðningarstyrk vegna starfs lýkur.
Atvinnuleysi hefur nú minnkað sjö mánuði í röð og hefur lækkunin verið nokkuð hröð. Atvinnuleysið var hins vegar um 5% í upphafi ársins 2020 og því ekki langt í land þar til við sjáum aftur svipað atvinnuleysisstig og þá. Það er töluvert háð því hvort fólk haldi störfum sínum eftir að ráðningarstyrkjum lýkur.
Alls var ráðið í um 4.570 störf með ráðningarstyrkjum á tímabilinu frá apríl til ágúst 2021 og er það ein veigamesta ástæðan fyrir minnkun atvinnuleysis. Nú í september byrja þessir ráðningarstyrkir að renna út og skiptir miklu hvort fólk á ráðningarstyrkjum heldur ráðningum sínum eða hvort þær taki enda. Almennt hefur verið góð reynsla af ráðningarstyrkjum í gegnum árin, en aðstæður nú eru töluvert öðruvísi en verið hefur. Það skiptir auðvitað fyrir áframhaldandi þróun atvinnuástands að fólk á ráðningarstyrkjum haldi störfum sínum.
Almennt atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu nema á Vestfjörðum milli júlí og ágúst. Mest dró úr atvinnuleysi á Suðurnesjum, um 1,2 prósentustig, og svo um 0,6 prósentustig á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysi er eftir sem áður langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, en það er ekki lengur tvöfalt meira á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu eins og það var lengi vel.
Almennt atvinnuleysi á Suðurnesjum var 9,7% í ágúst og minnkaði um 1,2 prósentustig frá júlí. Almennt atvinnuleysi þar var 24,5% í janúar og hefur nú minnkað sjö mánuði í röð, alls um 14,9 prósentustig.
Þrátt fyrir áföll í baráttunni við faraldurinn lítur áfram út fyrir að frekar dragi úr atvinnuleysi á næstunni. Staðan hér innanlands hefur ekki enn haft veruleg neikvæð áhrif á komur ferðamanna til landsins, þó væntingar hafi verið um fleiri komur. Eins og áður skiptir baráttan við faraldurinn í helstu viðskiptalöndum okkar miklu og sama má segja um afdrif ráðninga vegna styrkja.
Lesa hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi minnkaði um 0,6% í ágúst og mun væntanlega minnka áfram