Atvinnuleysi minnkaði áfram í mars – þróunin á réttri leið
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var almennt skráð atvinnuleysi í mars 11,0% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 11,4% frá því í febrúar. Um 25.200 manns voru á atvinnuleysisskrá í mars, þar af um 21.000 atvinnulausir og um 4.200 atvinnulausir í minnkuðu starfshlutfalli. Atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleið var 1,1% og var óbreytt milli mánaða. Heildaratvinnuleysi í mars var því 12,1% samanborið við 12,5% í febrúar og minnkaði þannig um 0,4 prósentustig.
Almennt atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu milli febrúar og mars, nema á Norðurlandi vestra þar sem það var óbreytt. Almennt er reiknað með að atvinnuleysi minnki þegar líður á árið 2021 en sú þróun er auðvitað háð hraða bólusetninga og því að tök náist á faraldrinum þannig að landið opnist meira. Okkar möguleikar í því sambandi eru reyndar líka mjög háðir sömu baráttu í okkar helstu viðskiptalöndum.
Vinnumálastofnun spáir því að áfram dragi úr almennu atvinnuleysi í apríl og að það verði í kringum 10%, m.a. vegna árstíðarsveiflu og sérstaks atvinnuátaks stjórnvalda. Því lítur nú út fyrir að hámarki atvinnuleysis hafi verið náð. Atvinnuleysið var hins vegar um 5% í upphafi 2020 og því langt í land þar til við sjáum aftur svipað atvinnuleysisstig og þá.
Almennt atvinnuleysi á Suðurnesjum var 23,2% í mars og minnkaði um 0,8 prósentustig frá febrúar. Almennt atvinnuleysi var 24,5% í janúar og hefur nú minnkað tvo mánuði í röð, alls um 1,3 prósentustig. Almennt atvinnuleysi þar er eftir sem áður rúmlega tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það var næst mest, eða 10,9%. Þriðja mesta atvinnuleysið var á Suðurlandi, 10,2%. Minnsta atvinnuleysið var á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra eins og verið hefur.
Á síðustu árum hefur atvinnuleysi kynjanna þróast með svipuðum hætti sé litið á landið allt. Í fyrra var meðalatvinnuleysi bæði karla og kvenna 7,9%, en árin tvö þar á undan var atvinnuleysi kvenna 0,2-0,3 prósentustigum hærra en hjá körlum. Fyrstu þrjá mánuði ársins 2021 hefur atvinnuleysi karla verið 11,5% á meðan það var 11,1% meðal kvenna, þannig að munur á atvinnuleysi kynjanna kann að vera að aukast samhliða því sem atvinnuleysi minnkar.
Langtímaatvinnuleysi fylgir jafnan kreppum eins og þeirri sem nú stendur yfir. Alls höfðu um 6.200 almennir atvinnuleitendur verið án vinnu í meira en 12 mánuði í lok mars, en voru um 4.700 í febrúarlok 2021. Þeir voru hins vegar um 2.200 í marslok 2020 og hefur því fjölgað um 4.000 milli ára.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi minnkaði áfram í mars – þróunin á réttri leið