Atvinnuleysi minnkaði áfram í júlí og sú þróun mun halda áfram

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í júlí 6,1% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 7,4% frá því í júní. Um 12.500 manns voru á atvinnuleysisskrá í júlí. Almennt skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar 2021 þegar það var 11,6% (12,8% með skertu starfshlutfalli) og hefur þannig minnkað um 5,5 prósentustig síðan.
Ekki er lengur um að ræða atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleið þar sem henni lauk í maí. Því var heildaratvinnuleysi í júní einnig 6,1% samanborið við 7,4% í maí og minnkaði þannig um 1,3 prósentustig milli mánaða. Í júlí 2020 var almennt atvinnuleysi 7,9% og það hefur því minnkað um 1,8 prósentustig á einu ári.
Almennt atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu milli júní og júlí. Mest dró úr atvinnuleysi á Suðurnesjum, um 2,8 prósentustig, og svo um 1,4 prósentustig á Suðurlandi. Atvinnuleysi er eftir sem áður mest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, en það er ekki lengur tvöfalt meira á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu eins og það var lengi vel.
Vinnumálastofnun spáir því að áfram dragi úr almennu atvinnuleysi og að það verði í kringum 5,5% í ágúst, m.a. vegna aukinna umsvifa og sérstaks atvinnuátaks stjórnvalda. Atvinnuleysi hefur nú minnkað sex mánuði í röð og hefur lækkunin verið nokkuð hröð. Atvinnuleysið var hins vegar um 5% í upphafi ársins 2020 og því enn dálítið í land þar til við sjáum aftur svipað atvinnuleysisstig og þá.
Á síðustu árum hefur atvinnuleysi kynjanna þróast með svipuðum hætti sé litið á landið allt. Á árinu 2020 var meðalatvinnuleysi bæði karla og kvenna 7,9%, en árin tvö þar á undan var atvinnuleysi kvenna 0,2-0,3 prósentustigum meira en hjá körlum. Fyrstu sjö mánuði ársins 2021 hefur atvinnuleysi karla verið 9,5% að meðaltali og 9,7% meðal kvenna. Á milli júní og júlí minnkaði atvinnuleysi karla á landinu öllu um 1,2 prósentustig á meðan það minnkaði um 1,3 prósentustig meðal kvenna. Atvinnuleysi karla var 5,8% í júlí og 6,5% meðal kvenna.
Þrátt fyrir áföll í baráttunni við faraldurinn lítur áfram út fyrir að frekar dragi úr atvinnuleysi í þessari kreppu. Staðan hér innanlands hefur ekki enn haft mikil neikvæð áhrif á komur ferðamanna til landsins, hvað sem kann að verða. Eins og áður skiptir baráttan við faraldurinn í helstu viðskiptalöndum okkar miklu og má þar t.d. nefna hvenær yfirvöld í Bandaríkjunum opna á flug til og frá Evrópu.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi minnkaði áfram í júlí og sú þróun mun halda áfram









