Atvinnuleysi mest á Íslandi af Norðurlöndunum
Í gegnum árin hefur atvinnuleysi verið einna lægst á Íslandi meðal Norðurlandanna. Fyrir 1990 einkenndist Ísland reyndar af mjög mikilli verðbólgu og litlu atvinnuleysi. Atvinnuleysi hér á landi jókst verulega á árinu 2020 og mun meira en í nágrannalöndunum. Nú er svo komið að atvinnuleysið hér er það mesta á Norðurlöndunum í fyrsta skipti, sé miðað við síðustu áratugi, og væntanlega í fyrsta skiptið í sögunni.
Sé litið á þróun atvinnuleysis á Norðurlöndunum frá aldamótum má sjá að sveiflurnar á síðustu árum eru mestar hér á landi og miklar breytingar gerast mun hraðar en í hinum löndunum. Það á sérstaklega við um fjármálakreppuna og Covid-faraldurinn sem hófst á síðasta ári. Fram til 2008 var atvinnuleysið að jafnaði minnst hér á landi og í fjármálakreppunni var einungis Noregur með minna atvinnuleysi en við. Staðan í Finnlandi versnaði verulega eftir 1990 og þar var atvinnuleysi að jafnaði yfir 10% fram að aldamótum. Staðan var heldur ekki góð í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar, en batnaði mun fyrr en í Finnlandi.
Sé tímabilinu frá 1991 skipt upp í þrjá hluta má sjá töluverða sérstöðu Íslands og Noregs með mun minna atvinnuleysi allan tímann. Það kemur líka í ljós að staðan hér á landi var einungis sú besta á milli 1991 og 2000, atvinnuleysi var meira hér en í Noregi síðustu tvö tímabilin. Á fyrsta tímabilinu var atvinnuleysi hér að jafnaði 3,7% á meðan það var 4,6% í Noregi. Seinni tímabilin voru tölurnar ívið lægri hjá Norðmönnum en hjá okkur, en fyrir utan stöðuna í Danmörku 2001-2010 er sérstaða Íslands og Noregs mikil. Sé litið á allt tímabilið frá 1991 var meðalatvinnuleysi hér á landi 4,2% á meðan það var 3,9% í Noregi. Á þessu tímabili var meðalatvinnuleysið 9,5% í Finnlandi, 5,9% í Danmörku og 7,3% í Svíþjóð.
Vorið 2020 jókst atvinnuleysi í öllum löndunum. Tímabundið var aukningin mest á Íslandi og í Noregi þar sem hlutabætur komu meira til sögunnar en í hinum löndunum, en tölurnar sýna atvinnuleysi með hlutabótum.
Sé hins vegar litið á stöðuna í lok ársins, þegar hlutabæturnar voru farnar að skipta mun minna máli, má sjá að þróunin hér á landi er mjög frábrugðin hinum löndunum. Hér hefur atvinnuleysi haldið áfram að aukast og var komið yfir 10% í lok ársins. Frá miðju síðasta ári hefur atvinnuleysi verið óbreytt í Finnlandi en minnkað í Svíþjóð, Danmörku og Noregi.
Meginskýringin á sérstakri þróun hér á landi er stórt hlutverk ferðaþjónustunnar í atvinnulífi og atvinnusköpun. Segja má að ferðaþjónustan og tengdar greinar hafi átt stærstan þátt í því að draga úr atvinnuleysinu sem varð til hér eftir fjármálakreppuna. Sá árangur hvarf eins og dögg fyrir sólu á tiltölulega stuttum tíma eftir að ferðaþjónustan tók að lenda í skakkaföllum. Á hinum Norðurlöndunum er mun meiri fjölbreytni í atvinnulífinu þannig að stór áföll í einstökum greinum hafa ekki jafn mikil áhrif og getur gerst hér á landi. Í fjármálakreppunni vorum við búin að koma upp fjármálakerfi sem var allt of stórt miðað við hagkerfið sjálft. Á síðustu árum hefur ferðaþjónustan orðið mikilvægasta útflutningsgrein okkar. Áföll þessara greina hafa því haft mun meiri áhrif hér á landi en í nágrannalöndunum.