Atvinnuleysi enn á niðurleið – en áfram mikið meðal erlendra ríkisborgara
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í júlí 3,2% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og minnkaði úr 3,3% frá júní. Alls voru 6.560 á atvinnuleysisskrá í lok júlí.
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni verða svipað í ágúst og var í júlí, rúmlega 3%. Atvinnuleysi í einstökum mánuði hefur ekki verið minna síðan í mars 2019 og atvinnuleysisstigið er nú orðið lægra en það var áður en faraldurinn skall á.
Atvinnuleysi er áfram langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysi á Suðurnesjum var 5,5%, en hefur ekki verið minna þar síðan í mars 2019. Hæst fór atvinnuleysið þar í 24,5% í júlí 2021. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu var 3,5% og hefur heldur ekki verið lægra þar síðan í mars 2019.
Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum milli loka júní og júlí. Fækkunin var hlutfallslega mest í ferðatengdum atvinnugreinum og upplýsingatækni- og útgáfu, eða um 15%.
Sé litið á hlutfall erlendra ríkisborgara af hópi atvinnulausra hefur það verið með hæsta móti síðustu mánuði. Í júní fór þetta hlutfall yfir 44% í fyrsta skipti og lækkaði síðan niður í rúm 43% í júlí.
Áætlað er að atvinnuleysi erlendra ríkisborgara hafi verið 7,3% í júlí, eða rúmlega tvöfalt meira en atvinnuleysi allra. Mikilvægi erlends starfsfólks hefur orðið sífellt meira í íslensku atvinnulífi og skýtur þessi staða því nokkuð skökku við.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi enn á niðurleið – en áfram mikið meðal erlendra ríkisborgara