Ársverðbólgan komin í tveggja stafa tölu
Verðbólguþrýstingurinn virðist nú meiri og almennari en við töldum og því uppfærum við nú spá okkar til næstu mánaða. Í stað þess að gera ráð fyrir að verðbólgan verði komin niður í 8,2% í júní eigum við nú von á að þá mælist hún enn 9,2%.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,39% milli mánaða í febrúar, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Ársverðbólgan jókst úr 9,9% í 10,2%. Þetta er mesta verðbólga sem hefur mælst í yfirstandandi verðbólgukúfi, og tveggja stafa verðbólga hefur ekki mælst hér á landi síðan í september 2009. Verðbólgan var mun meiri en við áttum von á, en við höfðum spáð 0,88% hækkun í febrúar (9,6% ársverðbólgu).
Matarkarfan, föt og skór
Það er áhyggjuefni hversu mikið daglegar neysluvörur almennings hafa hækkað í verði. Þegar litið er til stakra undirliða má sjá að matarkarfan hækkaði um 1,2% (0,3% áhrif), föt og skór hækkuðu um 6,8% (0,21% áhrif), húsgögn, heimilisbúnaður og fl. hækkuðu um 8,7% (0,53% áhrif) og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 0,7% (0,01% áhrif).
- Matarkarfan hækkaði um 1,9% milli mánaða, en við höfðum spáð 1,2% hækkun. Hækkanirnar voru nokkuð almennar, en 4 af 11 undirflokkum hækkuðu um meira en 3,5%. Meðal annars hækkaði grænmeti um 4,1%, ávextir um 3,6%, sykur og sælgæti um 3,7% og gos, vatn og safar um 3,5%.
- Föt og skór hækkuðu um 6,8%, en sá liður lækkaði um 8,4% milli mánaða á útsölum í janúar. Útsölurnar í janúar ganga yfirleitt til baka í febrúar og mars og virðast nú hafa klárast fyrr en venjulega. Einnig er líklegt að verð á nýjum vörum sé sett hærra en fyrir útsölur.
- Liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður og fl. hækkaði um 8,7%, en hafði lækkað um 5,5% í janúar. Hækkunin var því nokkuð meiri en nemur útsölulækkuninni í janúar.
- Reiknuð húsaleiga samanstendur af markaðsverði húsnæðis á landinu öllu ásamt framlagi vaxtabreytinga. Alls hækkaði sá liður um 0,1% milli mánaða (áhrif 0,02%) en við áttum von á 0,54% hækkun. Skýrist munurinn af því að fasteignaverð lækkaði mun meira en við áttum von á; við höfðum spáð 0,1 prósent lækkun en það lækkaði um 0,5%. Mæling Hagstofunnar á höfuðborgarsvæðinu var nokkuð lægri en mæling HMS auk þess sem verð utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði minna en við áttum von á. Framlag vaxtabreytinga var svipað og við bjuggumst við.
- Flugfargjöld til útlanda voru nokkurn veginn óbreytt, en við áttum von á lækkun milli mánaða. Þessi liður á það til að sveiflast mikið milli mánaða og því borgar sig ekki að lesa of mikið í stakar mælingar.
Sex af hverjum tíu undirliðum hafa hækkað um meira en 5%
Enn fjölgar þeim undirliðum sem hafa hækkað í verði langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans (2,5%). Meirihluti undirliða, það er 102 af 169 (60%), hafa hækkað um meira en 5% á síðustu tólf mánuðum. Þar af hafa 59 þeirra (35%) hækkað um meira en 10% á síðustu tólf mánuðum. Til samanburðar höfðu í byrjun árs í fyrra einungis 27% undirliða hækkað um meira en 5%, þar af 6% um meira en 10%. Þrátt fyrir þetta eru það fimm undirliðir (reiknuð húsaleiga, bílar, 95 okt. bensín, flugfargjöld til útlanda og greidd húsaleiga) sem skýra helming (49,6%) af ársverðbólgunni, en þessir fimm undirliðir eru um þriðjungur (32,9%) af vísitölunni.
Samsetning á verðbólgunni heldur áfram að breytast
Samsetning verðbólgunnar breyttist nokkuð milli mánaða. Framlag innfluttra vara án bensíns og framlag þjónustu jókst á meðan framlag húsnæðis minnkaði. Árshækkun allra fjögurra kjarnavísitalnanna jókst milli mánaða. Það sem veldur mestum áhyggjum er að árshækkun kjarnavísitölu 4, það er ársverðbólgan þegar búið er að taka út sveiflukenndustu liðina (búvöru, grænmeti, ávextir, bensín), opinbera þjónustu og reiknaða húsaleigu, hækkaði nokkuð þriðja mánuðinn í röð.
Hærri verðbólga í spilunum.
Nýjustu tölur benda til þess að verðbólguþrýstingur sé meiri og almennari en við töldum. Í ljósi þess höfum við uppfært verðbólguspá okkar til næstu mánaða. Áður spáðum við því að verðbólgan yrði komin niður í 8,2% í júní en nú spáum við því að hún verði 9,2% í júní.