Ársverðbólgan fer úr 10,2% í 9,8%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59% milli mánaða í mars, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan dróst saman, úr 10,2% í 9,8%. Smávægileg breyting varð á samsetningu verðbólgunnar en framlag bensíns og húsnæðis til ársverðbólgu lækkaði á meðan framlag þjónustu hækkaði. Þetta var minni hækkun en við bjuggumst við. Við spáðum 0,61% hækkun milli mánaða (9,8% ársverðbólgu) í verðkönnunarvikunni og hækkuðum svo spána í 0,72% milli mánaða (10,0% ársverðbólgu) í kjölfar birtingar HMS á vísitölu íbúðaverðs.
Húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði óvænt
Matarkarfan hækkaði um 0,7% á milli mánaða, en næstu tvo mánuðina þar á undan hafði hún hækkað um tæplega 2% og virðist því hafa hægst örlítið á. Þegar litið er til áhrifa á heildarvísitöluna hafði þessi hækkun 0,11 prósentustiga áhrif til hækkunar. Föt og skór hækkuðu um 4,3% (0,14% áhrif). Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkuðu um 1,7% (-0,11% áhrif), mæling sem kom okkur á óvart.
Nánar um helstu undirliði:
- Matarkarfan hækkaði svipað og við bjuggumst við, alls um 0,7%, en við höfðum spáð 0,8% hækkun. Mesta hækkun milli mánaða var á grænmeti sem hækkaði um 2,4% milli mánaða. Þar af hækkaði grænmeti ræktað vegna ávaxtar um 9,4%, en undir þann lið falla meðal annars tómatar og paprikur.
- Föt og skór hækkuðu um 4,2% í samræmi við væntingar, en við höfðum spáð 4,3%. Föt og skór mælast nú 2% dýrari en fyrir útsölurnar í janúar.
- Liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkaði um 1,7%, en við höfðum spáð 0,5% hækkun. Þetta er sá liður sem kom okkur mest á óvart og skýrir að miklu leyti muninn á spá okkar og mælingu Hagstofunnar. Mesta lækkun var á sængurfatnaði og handklæðum sem lækkaði um 10,3% milli mánaða, en í verðkönnunarvikunni voru tilboðsdagar hjá einhverjum söluaðilum. Því er mögulega um skammtímaáhrif að ræða sem gætu hæglega gengið tilbaka. Stór heimilistæki lækkuðu um 3,7%.
- Reiknuð húsaleiga samanstendur af markaðsverði húsnæðis á landinu öllu ásamt framlagi vaxtabreytinga. Liðurinn í heild hækkaði um 0,8% milli mánaða en við höfðum spáð hækkun um 1,0%. Skýrist munurinn á því að fasteignaverð hækkaði minna en við áttum von á, en framlag vaxtabreytinga var í takt við væntingar. Við hækkuðum spá okkar á markaðsverði húsnæðis í kjölfar birtingar HMS á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, en samkvæmt Hagstofunni lækkaði húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins milli mánaða sem skýrir að mestu muninn á okkar spá og tölunum sem birtust.
Hlutfall undirliða sem hafa hækkað meira en 10% lækkaði lítillega
Í fyrsta sinn síðan janúar 2022 fjölgaði ekki þeim undirliðum sem hafa hækkað meira en 10% á síðustu tólf mánuðum. Í desember 2021, þegar ársverðbólgan var einungis 5,1%, höfðu 5% undirliða hækkað meira en 10%. Þetta hlutfall hækkaði síðan jafnt og þétt var það komið upp í 35% undirliða í febrúar. Núna í mars lækkaði þetta hlutfall lítillega, eða niður í 33%.
Samsetning á verðbólgunni breytist aðeins milli mánaða
Samsetning verðbólgunnar breyttist ekki mikið, en þó eitthvað, á milli mánaða. Framlag innfluttra vara án bensíns og innlendra vara standur í stað en framlag bensíns og húsnæðis heldur áfram að lækka. Framlag þjónustu hækkar lítillega. Árshækkun kjarnavísitalna 1, 2 og 3 dróst saman milli mánaða en kjarnavísitala 4 hækkar, fjórða mánuðinn í röð. Kjarnavísitala 4 er ársverðbólgan þegar búið er að taka út sveiflukenndustu liðina (búvöru, grænmeti, ávexti, bensín), opinbera þjónustu og reiknaða húsaleigu. Það að kjarnavísitalan hækki sýnir okkur að enn er þónokkur verðbólguþrýstingur undirliggjandi, þó svo að verðbólga hafi hjaðnað lítillega.
Breytum ekki spá okkar til allra næstu mánaða
Við breytum ekki spá okkar um ársverðbólgu til næstu þriggja mánaða vegna þessara talna. Munurinn á mælingu Hagstofunnar og spá okkar fyrir mars var aðallega að húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu óvænt milli mánaða. Það var að öllum líkindum vegna sérstakra tilboða sem munu ganga til baka í apríl. Við spáum áfram 9,5% verðbólgu í apríl, 9,1% í maí og 8,4% í júní.