Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% milli mánaða í maí, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkar því og fer úr 9,9% í 9,5%. Reiknuð húsaleiga hækkaði minna en við áttum von á, en bæði hækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis minna og framlag vaxtabreytinga var minna en við höfðum spáð. Samsetning verðbólgunnar breytist lítið milli mánaða. Framlag þjónustu hækkar lítillega en framlag annarra liða lækkar í flestum tilvikum.
Reiknaða húsaleigan hækkar minna en við gerðum ráð fyrir
Erfitt hefur verið að spá fyrir um reiknuðu húsaleiguna (kostnaðinn við að búa í eigin húsnæði) síðustu mánuði, bæði markaðsverð húsnæðis og framlag vaxtabreytinga. Bæði í mars og í apríl hækkaði íbúðaverð meira en við höfðum gert ráð fyrir, en mánuðina þar á undan hafði hægt verulega á verðhækkunum. Árstakturinn í mælingu Hagstofunnar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis heldur áfram að lækka og er nú 10,2%. Reiknuð húsaleiga hækkar um 1,3% á milli mánaða í maí, þar sem hækkun íbúðaverðs á landinu öllu hækkar um 0,6% og framlag vaxtabreytinga er 0,7%. Við höfðum spáð því að liðurinn myndi hækka um 1,7%, þar sem íbúðaverð myndi hækka um 0,8% og framlag vaxtabreytinga yrði 0,9%.
Á höfuðborgarsvæðinu var talsverður munur á vísitölumælingu HMS og Hagstofunnar. Munurinn á vísitölunum er sá að vogirnar fyrir HMS vísitöluna miðast við 24 mánaða hlaupandi meðaltal en Hagstofan notar 36 mánaða hlaupandi meðaltal. Báðar vísitölurnar reikna þriggja mánaða hlaupandi meðaltal út frá upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum.
Nánar um aðra undirliði:
- Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,81% (áhrif á vísitöluna 0,12%) á milli mánaða, aðeins minna en við höfðum spáð.
- Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 7% (-0,15%). Flugfargjöld hækka alla jafna í kringum páska en lækka svo aftur eftir páska áður en sumarhækkanirnar taka við. Við höfðum gert ráð fyrir 7,5% lækkun sem er ekki fjarri mælingunni. Það sem af er ári hafa flugmiðar til útlanda verið rúmlega 20% dýrari en á sama tíma fyrir ári og virðist sú þróun ætla að halda eitthvað áfram.
- Bensín og díselolía lækkuðu einnig um 1,8% á milli mánaða, en við höfðum spáð 1,9% lækkun.
- Kaup ökutækja lækkuðu um 0,3% en við höfðum spáð 0,4% hækkun.
Undirliggjandi verðbólga lækkar milli mánaða
Kjarnavísitölur, vísitölur þar sem búið er að fjarlægja liði sem sveiflast mikið, lækka allar á milli mánaða. Það gerðist síðast í nóvember í fyrra, en þá stóð verðbólgan í 9,3%.
Liðum sem hafa hækkað yfir 5% fækkar á milli mánaða
Liðum sem hafa hækkað yfir 5% á ársgrunni fækkar á milli mánaða, úr 74% í 70%. Liðum sem hafa hækkað um minna en 2,5% fjölgar smávægilega á milli mánaða, sem hefur ekki gerst síðan í apríl í fyrra. Liðum sem hafa hækkað um á bilinu 2,5% til 5% fjölgar líka.
Samsetning á verðbólgunni
Af 9,5% verðbólgu í maí er hlutur húsnæðis 3,15 prósentustig og lækkar frá síðasta mánuði. Hlutur innfluttra vara án bensíns stendur nánast í stað, lækkar úr 2,33 prósentustigum í 2,28. Hlutur bensíns lækkar úr 0,2 prósentustigum í 0,1 prósentustig og hlutur innlendra vara lækkar úr 1,64 prósentustigum í 1,58 prósentustig. Þá hækkar hlutur þjónustu úr 2,40 prósentustigum í 2,44 prósentustig. Borið saman við maí í fyrra, þegar verðbólgan var 7,6%, má sjá að mestar hækkanir hafa verið í innfluttum vörum án bensíns og í þjónustu. Hlutur húsnæðis í ársverðbólgunni í fyrra var um 3,2 prósentustig og lækkar í 3,1 prósentustig nú í maí.
Búumst við 8,2% verðbólgu í ágúst
Við sjáum ekki ástæðu til þess að gera verulega breytingu á spá okkar til næstu mánaða vegna þessarar mælingar. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni hægt næstu mánuði. Spá okkar gerir núna ráð fyrir að verðbólgan mælist 8,9% í júní, 8,1% í júlí og 8,2% í ágúst. Þetta er aðeins minni verðbólga en í síðustu spá okkar, sem skýrist nær eingöngu af því að maímælingin var lægri en við bjuggumst við.