Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða í júní, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkar því annan mánuðinn í röð og fer úr 9,5% í 8,9% eins og við höfðum spáð. Þó ársverðbólgan hafi verið sú sama og við spáðum var þróun ýmissa undirliða önnur en við gerðum ráð fyrir. Liðirnir reiknuð húsaleiga, húsgögn og heimilisbúnaður, tómstundir og menning, og hótel og veitingastaðir hækkuðu meira en við spáðum, en á móti kemur að flugfargjöld til útlanda hækkuðu mun minna en við bjuggumst við. Áhrif bensínverðs er nú til lækkunar á ársverðbólgunni en hlutdeild þjónustu til verðbólgunnar eykst, bæði á milli mánaða og á milli ára.
Reiknaða húsaleigan hækkaði meira en við höfðum spáð
Liðurinn reiknuð húsaleiga hækkaði um 1,63% á milli mánaða í júní, þar sem íbúðaverð hækkaði um 0,99% og framlag vaxtabreytinga var 0,64%. Við höfðum spáð því að liðurinn myndi hækka um 1,1% á milli mánaða þar sem íbúðaverð myndi hækka um 0,4% og áhrif vaxta yrði 0,7%. Munurinn liggur í því að íbúðaverð á landsbyggðinni hækkaði töluvert meira en í okkar spá. Árstakturinn í mælingu Hagstofunnar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis heldur áfram að lækka og fer úr 10,2% í síðasta mánuði í 7,9% nú.
Nánar um aðra undirliði:
- Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,54% (áhrif á vísitöluna 0,08%) á milli mánaða, aðeins minna en við höfðum spáð.
- Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 2,7% á milli mánaða, sem kom okkur mjög á óvart, enda óvenju lítil hækkun á milli mánaða júní. Við spáðum 15,6% hækkun.
- Húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði um 1,3% á milli mánaða. Skýrist þessi lækkun af lækkun á liðnum sængurfatnaður, handklæði o.fl. og stórum heimilistækjum. Að öllum líkindum er hér um að ræða útsölur eða tilboð sem munu ganga til baka á næstu mánuðum.
- Tómstundir og menning hækkuðu um 1,5% milli mánaða. Meðal annars hækkuðu sjónvörp, útvörp og myndaspilarar um 6,2%, leikföng og spil um 5,2% og pakkaferðir til útlanda um 4,9%.
Samsetning á verðbólgunni önnur en fyrir ári
Af 8,9% verðbólgu í júní er hlutur húsnæðis 2,9 prósentustig og lækkar frá síðasta mánuði. Hlutur innfluttra vara án bensíns lækkar úr 2,3 prósentustigum í 2,2. Hlutur bensíns er nú til lækkunar og fer úr 0,1 prósentustigum í -0,3 prósentustig og hlutur innlendra vara lækkar úr 1,6 prósentustigum í 1,5 prósentustig. Eini liðurinn sem er til hækkunar milli mánaða er hlutur þjónustu sem fer úr 2,4 prósentustigum í 2,6 prósentustig.
Verðbólgan er örlítið meiri en hún var fyrir ári síðan þegar hún var 8,8%, en samsetningin hefur breyst nokkuð. Þegar júní er borinn saman við júní í fyrra, má sjá að hlutur húsnæðis og bensíns í ársverðbólgunni hefur minnkað töluvert, en hlutur annarra liða hefur aukist. Mestar hækkanir milli ára hafa verið í innfluttum vörum án bensíns og í þjónustu.
Hlutfall undirliða sem hafa hækkað yfir 5% eykst lítillega
Ekki er að greina mikla breytingu á því hversu stór hluti undirliða hækkar verulega í verði. Þegar talað er um að verðbólgan sé almenn er átt við að margir undirliðanna hafi hækkaði mikið í verði, sú skipting hefur haldist nokkuð óbreytt á síðustu mánuðum. Liðum sem hafa hækkað meira en 10% á 12 mánuðum og liðum sem hafa hækkað minna en 2,5% fjölgar á milli mánaða.
Búumst við 8,2% verðbólgu í september
Við sjáum ekki ástæðu til þess að gera verulega breytingu á spá okkar til næstu mánaða vegna þessarar mælingar. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni hægt næstu mánuði. Spá okkar gerir núna ráð fyrir að verðbólgan mælist 8,0% í júlí, 8,1% í ágúst og 8,2% í september. Við gerum ráð fyrir sömu verðbólgu næstu mánuði og við gerðum í síðustu spá, en búumst við minni hækkun á flugfargjöldum næstu mánuði, en hækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði.