Brottfarir erlendra ferðamanna frá Leifsstöð voru um 205 þúsund í október og hafa ferðamenn aldrei verið fleiri í októbermánuði. Í nýlegri hagspá gerðum við ráð fyrir 2,2 milljón ferðamönnum á þessu ári og eftir kröftugan októbermánuð má ætla að þeir verði rétt rúmlega það.
Bandaríkjamenn voru sem fyrr langfjölmennastir ferðamanna í október, um 50 þúsund, fjórðungur af öllum ferðamönnum. Bretar, sem eru að jafnaði helstu vetrarferðamennirnir hér á landi, tóku vel við sér í október og voru 27 þúsund, eða um 13% af heildinni. Til samanburðar var fjöldi Breta í kringum 10 þúsund í september.
Erlend kortavelta aldrei verið meiri
Kortavelta ferðamanna í október hefur aldrei verið meiri á föstu gengi, samkvæmt nýjum kortaveltutölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar. Uppsöfnuð kortavelta það sem af er ári nemur tæplega 280 mö.kr.
Utanlandsferðir Íslendinga dragast áfram saman
Íslendingar fóru um það bil 56 þúsund utanlandsferðir í október, töluvert færri en í októbermánuði í fyrra, þegar ferðirnar voru tæplega 72 þúsund talsins. Utanlandsferðir Íslendinga yfir sumar- og haustmánuðina hafa ekki verið færri frá árinu 2016, að Covid-árunum undanskildum. Fækkun utanlandsferða Íslendinga er í takt við aðrar vísbendingar um að landsmenn haldi nú að sér höndunum í neyslu og vaxtastigið bíti sífellt fastar. Í byrjun síðasta árs voru Íslendingar enn að taka við sér í ferðalögum en ferðunum fjölgaði hratt eftir því sem leið á árið. Á þessu ári hefur frekar hægt á taktinum með tímanum. Í heild eru ferðirnar álíka margar og í fyrra, 512 þúsund það sem af er þessu ári, en voru 510 þúsund á sama tíma í fyrra.